Jarðskjálftinn í Ölfusi var 3,6 að stærð og varð kl. 14.16 samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands. Upptök hans voru við Skálafell, um 10 km norðan við Þorlákshöfn, nálægt veginum um Þrengsli.
„Ég sat hér í eldhúsinu og það hristist hér allt og skókst og glamraði í skápunum. Þetta var einn stór kippur og svo titringur á eftir en það datt ekkert niður,“ sagði Sigurhanna Gunnarsdóttir húsfreyja á Læk í Ölfusi sem fann vel fyrir jarðskjálftanum í dag. Hún taldi að þessi skjálfti hafi verið minni en stóri skjálftinn sem varð á liðnu sumri, en snarpur samt.
Þrír litlir skjálftar hafa orðið eftir að þessi reið yfir í dag. Á þessu svæði hefur verið smáskjálftavirkni frá því á liðnu vori. Þann 29. maí varð skjálfti að styrk 6,1 en upptök hans voru nokkru austar en skjálftans í dag. Nokkrum dögum síðar, eða 3. júní, varð jarðskjálfti að styrk 4,3 og upptök hans undir hlíðum Skálafells.
Tilkynnt hefur verið um skjálftann í gegnum vef Veðurstofunnar og hafa þær m.a. komið frá Hveragerði, Selfossi, Þorlákshöfn, Stokkseyri, Reykjavík, Álftanesi.