Með umboð Alþingis

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Alþingi samþykkti í gær tvær þingsályktunartillögur sem veita ríkisstjórninni umboð til að leiða til lykta annars vegar samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hins vegar Icesave-deiluna.

Fyrri tillagan var samþykkt með 32 atkvæðum en 6 þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði á móti. Seinni tillagan var samþykkt með 29 atkvæðum en 7 þingmenn sögðu nei, 6 þingmenn Vinstri grænna og Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann greiddi atkvæði gegn tillögunni um Icesave-deiluna á þeirri forsendu að hún væri of opin.

Utanríkismálanefnd hafði bæði málin til umfjöllunar og meirihlutinn lagði ekki til neinar breytingar á tillögunum. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði að með Icesave-tillögunni væri ríkisstjórninni gefinn pólitískur stuðningur við stefnumörkun í yfirstandandi samningum og að miklir hagsmunir væru í húfi.

Meirihlutinn taldi einnig mikilvægt að gengið væri til samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en lagði áherslu á að ríkisstjórnin og Seðlabankinn settu fram ítarlega áætlun um fyrirkomulag efnahagsstjórnar næstu mánuði. Stjórnarandstöðuþingmenn gerðu hins vegar mikla fyrirvara við báðar tillögurnar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka