Útgerðarfélagið Samherji á Akureyri tilkynnti í dag um 50 milljóna króna framlag til ýmissa samfélagsverkefna í höfuðstað Norðurlands, að lang mestu leyti er þar um að ræða fé sem skal verja til að lækka æfingagjöld barna og unglinga í íþróttum, eða kostnað við keppnisferðir þeirra, í vetur. Frændurnir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs tilkynntu um styrkina í hófi í Ketilhúsinu síðdegis, en það fór fram í tilefni þess að í dag eru 25 ár liðin frá því fyrsta skip Samherja, Akureyrin, fór í fyrstu veiðiferðina.
Þorsteinn Már sagði, þegar hann ávarpaði samkomuna í dag, að þeir hefðu alltaf lagt áherslu á að reka Samherja frá Eyjafjarðarsvæðinu og sækja starfsfólk á það svæði. „Við höfum stundum verið gagnrýnd fyrir þessa stefnu, en ég hygg að hún hafi reynst okkur vel. Samherji á sterkar rætur hér á Eyjafjarðarsvæðinu þótt félagið sé í dag alþjóðlegt sjávarútvegs- og matvælaframleiðslufyrirtæki og meðal þeirra fremstu í sinni röð í heiminum,“ sagði forstjórinn.
Samfélagsleg ábyrgð
„Samherji hefur í 25 ár verið hluti af samfélaginu hér og lengst af meðal stærstu fyrirtækja á svæðinu. Því fylgir ábyrgð og við höfum reynt að efla eftir bestu getu hag þess fólks sem hjá okkur starfar og fjölskyldna þess. Við höfum jafnframt reynt að láta samfélagið í kringum okkur njóta góðs af starfseminni með því að styrkja innviði þess með ýmsum hætti,“ sagði Þorsteinn Már ennfremur.
„Við höfum komið með mörg stór viðhalds- og smíðaverkefni til Akureyrar gegnum tíðina, bæði á vegum Samherja á Íslandi og á vegum erlendra dótturfélaga okkar. Á þessu ári smíðaði Slippurinn til dæmis stóra vinnslulínu í eitt skipa okkar í Englandi og nú á haustmánuðum var Frost með stórt verkefni erlendis við breytingar á kælibúnaði í skipum á vegum Kötlu Seafood sem gerir út frystiskip við stendur Afríku.
Ómetanlegar forvarnir
Þorsteinn Már sagði þátttöku barna og unglinga í íþróttum ómetanlegan þátt í forvörnum og uppeldi. „Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til, óháð efnahag heimilanna.“
Auk íþróttafélaga á Akureyri styrir Samherji líka æskulýðsstarf kirkjunnar á Akureyri og íþróttastarf barna og unglinga á Dalvík, þar sem fyrirtækið hefur lengi verið með öflugt frystihús.
Þá afhenti Samherji Hjartaheill og HL-stöðinni á Akureyri styrk til minningar um tvíburabræðurna Vilhelm og Baldvin Þorsteinssyni, feður Þorsteins Más og Kristjáns, en þeir létust báðir langt fyrir aldur fram.
Meðal þess sem Samherji tilkynnti í dag er að fyrirtækið verður aðalbakhjarl verkefnis sem ber vinniheitið Hreyfing og útivist, hugarfósturs Stefáns Gunnlaugssonar formanns KA og verður hleypt af stokkunum innan skamms. Það verður nánar kynnt síðar en einn þáttur þess er uppbygging útivistarperlunnar í Kjarnaskógi.