Guðríðarkirkja við Kirkjustétt í Grafarholti var vígð við hátíðlega athöfn af biskupi Íslands í dag, annan sunnudag í aðventu. Fjölmenni var við vígsluna og voru kirkjunni færðar góðar gjafir.
Athöfnin hófst með því að biskupar, prestar og djáknar Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, sóknarnefnd, byggingarnefnd, starfsmenn kirkjunnar og kórar hennar gengu til kirkju með helga gripi hennar.
Kirkjukór og barnakór Grafarholtssóknar sungu við athöfnina undir stjórn Hrannar Helgadóttur og Berglindar Björgúlfsdóttur. Organisti var Hrönn Helgadóttir. Hljómskálakvintettinn, Agnes Amalía Kristjónsdóttir sópransöngkona og Kristjana Helgadóttir þverflautuleikari tóku þátt í tónlistarflutningi.
Við vígsluna voru frumfluttir tveir vígslusálmar sem kirkjunni hafa borist að gjöf. Annar er ortur af safnaðarfulltrúa sóknarinnar, Sigurjóni Ara Sigurjónssyni, og hinn af sóknarpresti. Jón Ásgeirsson tónskáld gerði lagið við fyrrnefnda sálminn og gaf Guðríðarkirkju í vígslugjöf.
Eftir vígsluna var kirkjugestum öllum boðið í veglegt hátíðarkaffi í Gullhömrum.