Bókunin frá Össuri komin

mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, lét bóka í ríkisstjórn fyrir skemmstu að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, starfaði ekki í umboði Samfylkingarinnar. Hann væri alfarið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Össur upplýsti þetta í viðtali við Sigmund Erni í Mannamáli á Stöð 2.

Össur fullyrti líka í Mannamáli að Samfylkingin hefði komið í veg fyrir að Davíð kæmi að stýrihópi eða neyðarráði sem átti að halda utan um fyrstu aðgerðir í kjölfar bankahrunsins.

„Það sem er rétt í þessu er að á ákveðnu skeiði í þessari fyrstu lotu var gerð tillaga um nokkurs konar ráð sem skipað yrði fjórum ráðherrum og forsætisráðherra myndi veita því forstöðu. Þessi nefnd átti að halda utan um og stýra þessu björgunarstarfi. Það er einnig rétt að það kom fram tillaga um að ákveðnir embættismenn lægju fyrir neðan þessa ráðherra. Tillagan gekk út á það að aðalbankastjóri Seðlabankans yrði þar í forstöðu. Samfylkingin hinsvegar vildi það ekki og hafnaði á þessum fundi," sagði Össur Skarphéðinsson í samtali við Sigmund Erni.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra skrifar á vefsíðu sinni um samtal Sigmundar Ernis og Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra. Orðrétt segir m.a.;

„Viðtalið var kynnt á þann veg, að Sigmundur Ernir hefði fengið fjölmargar spurningar frá hlustendum til að leggja fyrir Össur. Í þættinum komst Sigmundur Ernir hins vegar varla að, því að Össur talaði svo að segja samfleytt og gjarnan um sjálfan sig í þriðju persónu.“

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert