Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri mun á vormisseri 2009 bjóða í fyrsta sinn upp á framhaldsnám þar sem áhersla verður lögð á öldrun og öldrunarfræði.
Í tilkynningu segir að aldraðir séu sá hópur í þjóðfélaginu sem vaxi hvað hraðast og heilsa, virkni og vellíðan þessa aldurshóps sé einn af mikilvægum hornsteinum okkar þjóðfélagsins.
Markmiðið með þessu námsframboði Háskólans á Akureyri er að útskrifa einstaklinga sem eru vel í stakk búnir til að takast á við þær margvíslegu áskoranir sem bíða fagfólks í öldrunarþjónustu í dag.
Forstöðumaður námsleiðarinnar er Sólveig Ása Árnadóttir, lektor við HA. Nemendur geta valið um 40 ECTS eininga diplómanám eða 120 ECTS eininga meistaranám í heilbrigðisvísindum með áherslu á öldrun.
Kjarnanámsskeiðið í þessum námslínum er Öldrun og heilbrigði í íslensku samfélagi (10 ECTS eininga námsskeið) sem verður kennt á vorönn 2009 og síðan annað hvert ár.
Umsóknarfrestur fyrir þessa námslínu er 15. desember næstkomandi.