Ekkert virðist hafa verið flutt til landsins af írsku svínakjöti sem framleitt er eftir 1. september. Starfsmenn Matvælastofnunar, sem sinna eftirliti vegna innfluttra matvæla, funduðu í dag vegna þess að írsk yfirvöld innkölluðu í gær allt svínakjöt sem framleitt var fyrir þennan tíma.
Um miðjan september voru reyndar flutt inn 24 kíló af matreiddu írsku fleski, beikoni, en það er að öllum líkindum framleitt fyrr, að sögn Sigurðar Arnar Hanssonar, forstöðumanns matvælaöryggis- og neytendamálasviðs Matvælastofnunar, eftir fund starfsmanna stofnunarinnar sem lauk eftir hádegi.
Sigurður Örn segir að það svínakjöt sem flutt var til landsins eftir 1. september hafi komið frá Danmörku, Spáni og Hollandi, fyrir utan það lítilræði af matreiddu beikoni sem áður var nefnt.
Von er á tilkynningu frá írskum stjórnvöldum síðar í dag, til allra landa ESB og annarra viðskiptalanda Írlands, um það hvert svínakjöt hefur verið flutt þaðan eftir 1. september.