Eftirstöðvar gengistryggðra lána minnka

Styrking krónunnar kemur strax fram á gengistryggðum lánum. Eftirstöðvar þeirra lækka og það sama á við um greiðslur á gjalddaga.

Krónan styrktist um tæp 20% í síðustu viku eftir að hún var sett á flot á fimmtudag. Eftirstöðvar gengistryggðra lána ættu að hafa lækkað um svipað hlutfall. Hver lækkunin er raunverulega er þó háð þeim myntum sem lánið miðast við, en höfuðstóllinn breytist á hverjum tíma í hlutfalli við breytingar á gengi hverrar myntar fyrir sig.

Varðandi lækkun á greiðslum á gjalddaga, sem er einnig í stórum dráttum í takti við styrkingu krónunnar, ber að hafa í huga, að þær miðast alla jafna við gengið ákveðnum dagafjölda fyrir gjalddagann. Algengt er til að mynda að reikna greiðslurnar allt að tíu dögum fyrir gjalddaga.

Útilokað er  hins vegar að álykta eitthvað um áhrifin af styrkingu krónunnar í síðustu viku á verðlagið í landinu, að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, SVÞ. Hann segir að styrking krónunnar í tvo daga, eftir að hún var sett á flot á fimmtudag, sé allt of skammur tími til að leggja grundvöll að miklum vangaveltum eða ályktunum um hvert framhaldið verður.

„Hins vegar er ljóst, að ef krónan styrkist áfram eins og hún gerði á fimmtudag og föstudag í síðustu viku, þá verður auðveldara að verðleggja innfluttar vörur. Þetta leiðir af sjálfu sér,“ segir Andrés.

Gengið er afgerandi stærð varðandi verðlagið í landinu, að sögn Andrésar. Hann segir að gríðarlega miklu máli skipti að gengisvísitalan komist á stig sem sé ásættanlegt til að mæta bæði hagsmunum innflytjenda og útflytjenda. Þróunin í síðustu viku gefi hins vegar ekki tilefni til að ráða í hvert framhaldið verður, enn sem komið er. Ljóst sé að mikill meirihluti fyrirtækja sé með erlend lán, og langflest þeirra séu blanda af svissneskum frönkum og japönskum jenum, en enginn gjaldmiðill hafi styrkst meira gagnvart íslensku krónunni en einmitt jenið. Því sé mikið í húfi að gengið haldi áfram að styrkjast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert