Innan við eitt prósent tekna á Íslandi

„Actavis finnur fyrir því að vera frá Íslandi eins og önnur íslensk fyrirtæki,“ segir Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis. Forsvarsmenn Actavis hafa að undanförnu fundað með forsvarsmönnum tryggingafélaga sem tryggja greiðslur frá Actavis til lánveitenda og annarra. Þær hafa gengið vel að sögn Sigurðar Óla. Tryggingafélögin hafa áhuga á því að fá nánari upplýsingar um hvernig fyrirtækið stendur í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins.

Sigurður Óli segir stöðu Actavis ekki sveiflast mikið með gengi krónunnar þar sem minna en eitt prósent af tekjum félagsins koma frá Íslandi. „Við erum fyrst og fremst alþjóðlegt fyrirtæki þannig að fyrst og fremst snýst þetta um orðspor, í ljósi þess að uppruni Actavis er á Íslandi.“

Actavis, sem er með um 550 starfsmenn hér á landi, einbeitir sér að framleiðslu samheitalyfja. Samheitalyf er jafngilt og frumlyfið sem það er borið saman við og selt undir sama heiti. Það hefur sama virka innihaldsefni, í sama magni.

Sigurður Óli segir nokkur sóknarfæri felast í erfiðu efnahagsástandi eins og nú er. Hagræðingaraðgerðir inn á heilbrigðisstofnunum lýsi sér meðal annars í því að samheitalyf eru frekar keypt en frumlyfin, vegna þess að þau eru ódýrari. „Fyrir fyrirtæki eins og Actavis er þetta sóknarfæri fyrir hinn daglega rekstur. Við finnum líka fyrir því. Salan hefur gengið vel að undanförnu. Hins vegar er auðvitað erfitt aðgengi að lánsfé og ekki hægt að fara kaupa fyrirtæki í þessu árferði, enda engin ástæða til heldur. Rekstur fyrirtækisins er traustur og gengur vel og það er það sem máli skiptir. Traustur daglegur rekstur og sala á framleiðsluvörum fyrirtækisins,“ segir Sigurður Óli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert