FME aðhefst ekki vegna viðskipta Birnu

Birna Einarsdóttir.
Birna Einarsdóttir.

Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun á viðskiptum Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Nýja Glitnis, og félags hennar, Melkorku ehf., við Glitni banka hf., um kaup á hlut í bankanum. Segir stofnunin að ekkert í gögnum málsins bendi til annars en að Birna hafi verið í góðri trú og vanefndir á kaupsamningi stafi af ástæðum sem séu óviðkomandi henni.

Í tilkynningu segir Fjármálaeftirlitið, að gögn málsins, m.a. tölvupóstar og  viðskiptayfirlit, sýni að þessi hlutabréfaviðskipti náðu í raun ekki fram að ganga vegna vanrækslu af hálfu „gamla" bankans.

„Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að Birna Einarsdóttir hafi verið í góðri trú og að vanefnd stafi af ástæðum sem eru óviðkomandi henni. Af þeirri ástæðu er ekki tilefni til aðgerða af hálfu Fjármálaeftirlitsins gagnvart Birnu Einarsdóttur eða Melkorku ehf. Athugun á tilkynningar- og birtingarskyldu „gamla" Glitnis banka hf., stendur enn yfir," segir í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.

Fram kemur komið, að að Birna taldi sig hafa keypt hlutabréf í Glitni í febrúar 2007. Fékk hún lán hjá bankanum til 5 ára til að fjármagna kaupin. Á aðalfundi Glitnis í  febrúar 2008 óskaði hún eftir atkvæðisrétti fyrir félag sitt en þá kom í ljós að engin hlutabréf voru skráð á félagið.  Kom þá í ljós að vegna formgalla fóru viðskiptin aldrei í gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert