Hiti í fólki í Háskólabíói

Frá fundinum í Háskólabíói í kvöld.
Frá fundinum í Háskólabíói í kvöld. mbl.is/Kristinn

Fjölmenni var á borgarafundi í Háskólabíói í kvöld og mörgum heitt í hamsi þótt ekki hafi jafn margir mætt og um daginn þegar ráðherrar sátu fyrir svörum. Í kvöld var verðtrygging, skuldir heimilanna og fleira í þeim dúr var til umræðu.

Frummælendur á fundinum voru Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir, Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands og Vésteinn Gauti Hauksson, markaðsstjóri. Meðal gesta voru Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, sem var erlendis á dögunum þegar ráðherrum var boðið á fundinn á sama stað, Ögmundur Jónasson formaður BSRB og Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins. 

Áætlað var í upphafi fundar að tæplega 700 manns væru mættir, þar á meðal nokkrir alþingismenn og þá voru fulltrúar þýskra, breskra og bandaríska fjölmiðla á staðnum. 

Sérlega góður rómur var gerður að máli Ástu Rutar, klappað eftir nánast hverju setningu og fólk stóð upp og hyllti Ástu þegar hún hafði lokið máli sínu.

Ásta kvaðst reka heimili, sýna aðgát og aðhaldssemi í rekstri, stunda siðlega og löglega viðskiptahætti. Fyrir ári hefði hún fengið lán fyrir kaupum á íbúð, 70% af kaupverði, en eigið fé væri nú að brenna upp á verðbólgubáli.

Ásta Rut gagnrýndi verkalýðsforystuna fyrir ofurlaun, og spurði m.a. hvernig fólk með slík aun gæti verið í tengslum við hinn almenna launamann.

Að loknum framsöguerindum bauðst fundargestum að spyrja þá sem sátu fyrir svörum. Einn fundargesta talaði um áætlanir um að draga úr misrétti laga um eftirlaun ráðamanna og spurði skiptaráðherra hvers vegna ekki mætti afnema misréttið með öllu. Björgvin sagði búið að taka ákvörðun um að nema eftirlaunalögin frá 2003 úr gildi. „Það er hægt að afnema þau alveg þannig að ráðamenn færu í A-deild lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna,“ sagði hann en komst ekki lengra fyrir lófataki fundarmanna. „En Alþingi hefur síðasta orðið í því,“ bætti hann við.

Á fundinum var spurt um laun forystumanna verkalýðsforystunnar. Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, sagði stefnu félagsins að borga í samræmi við markaðslaun og hefði launanefnd VR úrskurðað um hans laun. Sjálfsagt væri að endurskoða þau líkt og víða væri gert um þessar mundir. Gylfi upplýsti að hann væri með um 900 þúsund krónur í laun, sem vakti talsverða reiði fundarmanna. Margir forystumannanna sögðust þiggja laun samkvæmt töxtum félaga sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka