Tveggja manna er nú leitað sem brutust inn í fyrirtæki í Þingholtunum og stálu þaðan peningaskáp skömmu fyrir miðnætti í nótt. Þeir sáust hlaupa frá vettvangi. Ekki liggja fyrir nákvæmar lýsingar á þeim en á grundvelli vísbendinga sem liggja fyrir rannsakar lögreglan málið. Mennirnir brutu hurðarrúðu og komust þannig inn í fyrirtækið.
Brotist inn í fyrirtæki í Hafnarfirði. Skömmu fyrir sjö barst lögreglu tilkynning um að hreyfiskynjari hafði farið í gang. Þegar lögregla og öryggisverðir komu á staðinn var buið að tína saman einhver verðmæti, þar á meðal verkfæri. Eftir leit í fyrirtækinu fannst maður í felum undir borði. Hann gistir nú í fangageymslum lögreglu grunaður um að hafa brotist inn ásamt öðrum sem nú er leitað.
Þá var tilkynnt um bílaþjófnað í Hafnarfirði en lögreglumenn voru fljótir að komast að því hver var að verki. Þjófurinn hafði skilið eftir sig spor í snjónum sem leiddu lögreglumenn að honum og var hann handtekinn. Grunur leikur á því að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna.