„Við fengum lítil svör. Forstjórinn [Halldór Jörgensson] sagði okkur að Deutsche Bank gerði ríka kröfu um að allt verði hámarkað en hann vildi auðvitað ekki meina að fyrirtækið væri að haga sér óheiðarlega,“ segir Sturla Jónsson vörubílstjóri um fund hans og forstjóra Lýsingar sem lauk skömmu fyrir hádegi.
Á fundinum var rætt um innheimtuaðgerðir Lýsingar en vörubílstjórum finnst fyrirtækið sýna fullmikla hörku, að sögn Sturlu. „Okkur finnst óeðlilegt að það sé verið að áætla verkstæðiskostnað upp á næstum tvær milljónir á bíla, en meta þá svo á 440 þúsund krónur. Það þýðir að Lýsing tekur til sín bílinn á þessu smánarverði en skilur eftir kostnað upp á aðra milljón á bilstjóranum. Svo getur fyrirtækið farið í það að selja bílinn úr landi á réttu verði, sem er miklu nær tveimur milljónum en 400 þúsundum. Bílstjórum finnst þetta harkalegar aðgerðir, því það er nógu alvarlegt að geta ekki borgað af bílnum og missa þannig vinnuna. Einhver svimandi hár áætlaður verkstæðiskostnaður er eitthvað sem verður að vera hægt að skýra almennilega. Það hefur ekki verið gert.“
Halldór segir Lýsingu ekki geta gert neitt annað miðað við þær verkslagsreglur sem unnið er eftir. Jafnt verði yfir alla að ganga.
„Ég ætla ekki að ræða einstök mál en það liggur alveg fyrir þegar menn gera samninga um fjármögnun að allir verða að standa við samninganna. Ef að menn borga ekki þegar það á að borga þá hefur það afleiðingar. Því er eins farið með okkur. Okkar lánardrottnar geta ekki miðað við neitt en samninginn við okkur, svo ég taki dæmi. Um leið og einhver slaki er gefinn á samningunum, sem gengið var frá með vilja þeirra sem að honum komu, þá fyrst geta myndast vandræði. Það er misskilningur að peningarnir safnist upp hjá okkur. Það er alls ekki þannig. Við erum að nota sömu aðferðirnar gagnvart öllum okkar viðskiptavinum. Sem byggja á viðskiptasamningnum sem er í gildi.“