Lagastoð skortir til að takmarka bifreiðakaupastyrki

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis telur að reglugerð sem kveður á um að styrkur til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra skuli aðeins veittur á fimm ára fresti, eigi ekki stoð í lögum um almannatryggingar. Tryggingastofnun synjaði manni um styrk til bifreiðakaupa þar sem ekki voru liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu, auk þess sem maðurinn stundaði hvorki launaða vinnu né var í skóla. Umboðsmaður Alþingis telur rétt að Tryggingastofnun hugi aftur að máli mannsins.

Karlmaður leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem nefndin staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um styrk vegna kaupa á bifreið. Hafði maðurinn sótt um styrkinn með vísun til þess hann byggi við verulega skerta færni í öxlum og handleggjum, auk þess sem hann þyrfti að nota hjólastól. Þá hefði ástand hans versnað töluvert frá því hann fékk síðast styrk til bifreiðakaupa á árinu 2004 og flutningar milli hjólastóls og bílsætis á þeim bíl sem hann æki nú væru orðnir honum ofviða og bifreiðin því nánast ónothæft hjálpartæki.

Synjun úrskurðarnefndarinnar byggðist á þeirri forsendu að maðurinn hefði ekki fullnægt skilyrði reglugerðar um að fimm ár væru liðin frá síðustu styrkveitingu. Af þeim sökum beindi umboðsmaður athugun sinni að því hvort umrætt skilyrði reglugerðarinnar ætti sér fullnægjandi stoð í lögum.

Heilbrigðisráðuneytið segir í bréfi til umboðsmanns Alþingis að eðlilegt  hafi þótt að ákveðinn tími líði á milli styrkveitinga og hafi verið tekið mið af endurnýjunartíma bifreiða almennt í því sambandi. Þá vekur ráðuneytið athygli á því að takmörkuðum fjármunum sé varið til almannatrygginga á ári hverju og til að tryggja að útgjöld séu innan heimilda sé nauðsynlegt að takmarka styrkveitingu við að viðkomandi þurfi á bifreið að halda til að stunda vinnu eða skóla og að styrkurinn sé aðeins veittur á sex ára fresti. Þá segir að eðlilegt hafi þótt, að teknu tilliti til fjárhagssjónarmiða ríkissjóðs, að kveða á um í reglugerð að til styrkveitingar komi aðeins á tilteknum árafresti.

Umboðsmaður Alþingis segir að fjárhagssjónarmið ríkissjóðs eða sjónarmið um almennan endurnýjunartíma bifreiða geti ekki, án fyrirliggjandi afstöðu löggjafans, veitt viðhlítandi grundvöll fyrir því fyrirkomulagi að í reglugerð séu sett fortakslaus og hlutlæg skilyrði fyrir aðstoð vegna sjúkleika, sem í reynd útiloka lögmælt og skyldubundið mat á líkamsástandi umsækjanda, sem ráðgert er í almennum lögum. Það sé hins vegar annað mál, sem hefði þá hugsanlega þýðingu við sérfræðilegt mat á nauðsyn fyrir frekari styrkveitingu, ef tiltölulega stuttur tími er liðinn frá því umsækjanda var áður veittur styrkur.

Umboðsmaður rakti í áliti sínu að reglugerðin væri sett með heimild í ákvæðum laga um almannatryggingar, en samkvæmt orðalagi í lögunum hefðu skilyrði fyrir styrkgreiðslum til að afla hjálpartækja og bifreiða eingöngu verið að mat lægi fyrir á nauðsyn slíks búnaðar vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða þess að líkamshluta vantaði.

Taldi umboðsmaður að því væri ekki hægt að draga aðra ályktun af orðalagi lagaákvæðisins en að það mælti fyrir um skyldu Tryggingastofnunar til að leggja efnislegt mat á hvort viðkomandi þyrfti á slíkum búnaði að halda vegna tiltekinnar líkamlegrar fötlunar eða takmörkunar.

Þótt ljóst væri að reglugerðarheimildin veitti ráðherra heimild til að útfæra nánar reglur um hvernig bæri að framkvæma mat á nauðsyn umsækjanda á að fá styrki og þau málefnalegu sjónarmið sem horfa yrði til í því sambandi var það álit umboðsmanns að ráðherra hefði ekki vald til að setja reglur sem mæltu fyrir um afdráttarlaus tímaskilyrði fyrir umsóknum.

Taldi umboðsmaður að slík tímaskilyrði þyrftu að koma fram í lögunum sjálfum. Þar sem svo væri ekki þá hefðu þau ekki átt sér stoð í lögum.

Umboðsmaður taldi einnig að verulegur vafi léki á því hvort sömu tímaskilyrði reglugerðarinnar ættu sér stoð í nýjum lögum um sjúkratryggingar, sem leyst hefðu ákvæði laga um almannatryggingar af hólmi. Benti umboðsmaður á að það álitaefni kynni að rísa við framkvæmd laganna hvort sú óhefta heimild sem ráðherra væri fengin í ákvæðinu til að mæla fyrir um takmarkanir á kostnaðarþátttöku í reglugerð gengi eftir atvikum lengra en löggjafanum væri heimilað samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að það tæki afstöðu til þess hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera á tímatakmörkunum styrkveitinga í reglugerð. Umboðsmaður taldi jafnframt rétt að beina því til félags- og tryggingamálaráðuneytisins að horfa til þeirra sjónarmiða sem rakin væru í álitinu við fyrirhugaða endurskoðun almannatryggingalaga og þá m.a. um þær kröfur sem 76. gr. stjórnarskrárinnar gerir til lagaheimilda á þessu sviði. Í greininni segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Loks vakti umboðsmaður athygli úrskurðarnefndar almannatrygginga á þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu og að það kynni að verða nefndinni tilefni til að huga að máli mannsins að nýju.

Álit umboðsmanns Alþingis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert