Þingfundur hófst á ný klukkan 16:10 en þá hafði lögreglu tekist að koma um 30 manna hópi, sem gerði hróp að þingmönnum af þingpöllum, út úr húsinu. Voru flestir þeirra handteknir og fluttir á lögreglustöð. Einnig voru nokkrir, sem reyndu að ryðjast gegnum raðir lögreglu við Alþingishúsið handteknir.
Mikil spenna er utan við Alþingishúsið og gerir fólk hróp að lögreglu, sem enn er þar með viðbúnað. Einnig er lögregla með viðbúnað við lögreglustöðina við Hverfisgötu en fólk segist ætla að fara þangað og mótmæla handtöku þeirra, sem voru í þinghúsinu.
Hópur, sem nefnir sig Aðgerð Aðgerð, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að fólk á hans vegum hafi farið inn í Alþingishúsið í þeim tilgangi að stöðva starfsemi þingsins. Ástæðan sé sú að Alþingi, eins og það er rekið í dag sé ónýt stofnun. Segist hópurinn jafnframt lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og krefjast þess að hún víki.