Fjármálaeftirlitið, bankakerfið og Seðlabankinn eru þær stofnanir sem flestir sem tóku þátt í nýrri skoðanakönnun MMR segjast bera lítið traust til. Þannig eru 80% sem setjast bera lítið traust til Fjármálaeftirlitsins og bankakerfisins en 74% segjast bera lítið traust til Seðlabankans. Ríkisstjórnin nýtur lítils trausts meðal 61% svarenda, og Alþingi nýtur lítils trausts meðal 55% svarenda.
Gamalgróin fyrirtæki og vörumerki njóta mikils trausts
Um og yfir 76% aðspurðra segjast bera mikið traust til Háskóla Íslands, Fréttastofu Sjónvarps (RÚV) og Lögreglunnar. Háskólinn í Reykjavík nýtur trausts 64% svarenda.
„Athygli vekur að mun fleiri segjast bera mikið traust til gamalgróinna fyrirtækja og vörumerkja en helstu valdastofnana samfélagsins. Þannig eru 53% sem segjast bera mikið traust til Mjólkursamsölunnar, 43% segjast bera mikið traust til Sláturfélags Suðurlands, 39% segjast bera mikið traust til Bónuss og 34% segjast bera mikið traust til Coca Cola. Þetta er svipaður fjöldi og kveðst treysta Landsvirkjun og Stéttarfélögunum, sem hvort um sig njóta mikils trausts hjá 37% svarenda," að því er segir í tilkynningu frá MMR.
Fleiri treysta Evrópusambandinu en ríkisstjórninni
Sé litið til helstu valdastofnana samfélagsins þá eru 19% sem bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar og 18% sem bera mikið traust til Alþingis. Þetta er álíka fjöldi og kveðst bera mikið traust til VR og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
„Athygli vekur að heldur fleiri, eða 26%, segjast bera mikið traust til Evrópusambandsins." Hvað varðar aðra aðila sem spurt var um þá segjast fleiri bera lítið traust til þeirra en segjast bera mikið traust til þeirra. Þannig eru 32% sem bera lítið traust til lífeyrissjóðanna en 31% sem bera mikið traust til þeirra, 32% segjast bera lítið traust til Evrópusambandsins en 26% segjast bera mikið traust til þess, 31% segjast bera lítið traust til fjölmiðlanna en 23% segjast bera mikið traust þeirra, 34% segjast bera lítið traust til VR en 18% segjast bera mikið traust til þess og 39% segjast bera lítið traust til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en 17% segjast bera mikið traust til hans.
Mikill munur á milli stuðningsmanna stjórnmálaflokkanna
Töluverður munur mælist er á afstöðu svarenda eftir því hvaða stjórnmálaflokka þeir segjast myndu kjósa ef kosið væri til Alþingis í dag. Meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru 68% sem segjast bera mikið traust til Ríkisstjórnarinnar, 55% segjast bera mikið traust til Alþingis og 40% þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn segjast bera mikið traust til Seðlabankans.
Meðal þeirra sem setjast myndu kjósa Samfylkinguna eru aftur á móti 24% sem segjast bera mikið traust til Ríkisstjórnarinnar, 20% segjast bera mikið traust til Alþingis og 2% segjast bera mikið traust til Seðlabankans. Stuðningur við þessar stofnanir er afgerandi minnstur meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna, en aðeins 3% þeirra segjast bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, 7% segjast bera mikið traust til Alþingis og 2% segjast myndu bera mikið traust til Seðlabankans, að því er segir í tilkynningu.