Bankar sammælast um aðgerðir

Nýi Glitnir hf., Nýja Kaupþing hf. og NBI hf. hafa komið sér saman um  aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Segja bankarnir, að á meðan unnið sé að fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja þurfi að leitast við að þau haldi áfram starfsemi.  Í þeirri vinnu verði fyrst og fremst litið til hagsmuna fyrirtækjanna sjálfra og reynt að tryggja framtíð þeirra.

Í tilkynningu frá bönkunum þremur segir, að framundan sé mikil vinna við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Miklir hagsmunir séu í húfi hjá kröfuhöfum, skuldurum og þjóðfélaginu öllu. Mikilvægt er að ferlið sé gagnsætt og sanngjarnt og að stuðlað sé að aukinni samkeppni í atvinnulífinu.  Koma þurfi í veg fyrir að tímabundnir erfiðleikar og ósamkomulag kröfuhafa leiði til falls lífvænlegra fyrirtækja.


Með vísun til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 2. desember sl. um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem meðal annars beint var til hinna nýju banka, hafa Nýi Glitnir hf., Nýja Kaupþing hf. og NBIhf. komið sér saman um eftirfarandi aðgerðir:
 

  1. Bankarnir miða að því að starfa eftir áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, frá 12. nóvember 2008 og sjái um að kynna það fyrir starfsmönnum sínum.
  2. Að stofnað verði  embætti umboðsmanns viðskiptamanna í hverjum banka í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar.  Umboðsmaður taki til starfa eins fljótt og unnt er.
  3. Að tekið verði mið af alþjóðlegum viðmiðum (London Approach) sem mynda ramma um úrvinnslu flókinna lánamála og stuðla að yfirveguðum ákvörðunum í hverju máli, þar sem talið er að hefðbundin réttarfarsúrræði laga henti ekki.
  4. Hver banki eða bankarnir sameiginlega  munu setja á stofn umsýslufélög sem hafa það hlutverk að yfirtaka eignarhluti í fyrirtækjum sem bankinn hefur eignast.  Bankar kunna þó að þurfa tímabundið að halda hlutum í fyrirtækjum á meðan verið er að vinna að úrlausn á vanda þeirra.

„Framangreindum aðgerðum er ætlað að stuðla að því að úrvinnsla útlánavandamála hjá hinum nýju bönkum verði eins gegnsæ og sanngjörn og kostur er og allir meginferlar séu skýrir. 

Aðgerðunum er ætlað að tryggja að viðskiptaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við úrlausn útlánavandamála. Hafa verður í huga að þrátt fyrir að bankarnir setji sér sameiginleg meginviðmið getur misjöfn staða fyrirtækja kallað á ólíkar aðferðir við úrlausn skuldavanda.
 
Nýi Glitnir, Nýja Kaupþing og NBI lúta samkeppnislögum líkt og önnur fyrirtæki í landinu. Samkeppniseftirlitið hefur heimilað hinum nýju bönkum að vinna saman að þessu mikilvæga máli enda kalla stjórnvöld eftir samræmdum vinnureglum," segir í tilkynningu frá bönkum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert