Fjórar af fimm séreignaleiðum Stafa lífeyrissjóðs báru neikvæða ávöxtun frá áramótum og út október. Leið 4, hlutabréfa og samsettra fjárfestingakosta, fór verst út og töpuðu sjóðsfélagar 32,5% séreignarsparnaðar síns. Ávöxtun annarra leiða var neikvæð um 3,8-16,8%. Leið 1, sem er verðtryggður innlánsreikningur, hefur skilað 18,4% ávöxtun í ár.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, segir erfitt að meta stöðu sjóðsins eftir bankahrunið en það ætlar hann að gera á fundi á Grand Hóteli á fimmtudagskvöld. Ólafur bíður með tölurnar og mat á almennum lífeyrisgreiðslum upp úr áramótum þar til á fundinum. „Við viljum skýra út forsendurnar fyrir útreikningunum fyrir sjóðsfélögunum.“
Ólafur segir töluvert um varúðarafskriftir. „Við eigum skuldabréf í fjölmörgum stórfyrirtækjum í landinu og sitt sýnist hverjum um greiðslugetu þeirra. Við bendum á að sjóðurinn hefur afskrifað töluvert mikið í varúðarskyni en það er til endurskoðunar mánaðarlega.“ Því verði staðan sem kynnt verði á fundinum hugsanlega verri en sú endanlega. „Við búumst við því að um áramót verði staðan öðruvísi.“ Þeir meti hverja frétt og áhrif hennar á stöðu sjóðins. „Það er mikil óvissa í mati lífeyrissjóðsins.“
Stafir eru 5. stærsti lífeyrissjóðurinn á Íslandi. Um 50 þúsund eiga réttindi í Stöfum.