Herferð í Noregi fyrir íslensk börn og unglinga

Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni.
Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Norræna félagið í Noregi hefur látið búa til vinamerki sem verða seld og ágóðanum varið til að styðja þátttöku íslenskra barna og unglinga í norrænu samstarfi á næsta ári. Þetta kemur fram á heimasíðu Norræna félagsins.

Á heimasíðunni segir að í fjármálakreppunnar á Íslandi hafa fjölmargir Norðmenn lýst yfir vilja til að aðstoða íslenska vini. Þess vegna hafi Norræna félagið í Noregi ákveðið að láta gera vinamerki - „Norrænir vinir á Íslandi" - í þessum tilgangi.

„Norræn vinabæjarmót, ungmennaskipti, nemendaheimsóknir, skólabúðir og starfsdvalir í öðrum löndum, allt slíkt kostar Íslendinga nú mun meira en áður vegna gengishruns íslensku krónunnar. Norræna félagið í Noregi vill leggja sitt að mörkum til þess að ungir Íslendingar verði ekki út undan í norrænu samstarfi. Í heimi mikilla og óvæntra breytinga er mikilvægt að halda norrænu samstarfi virku og að það reynist stöðugur samstarfsvettvangur fyrir sameiginlegar lausnir,“ segir á heimasíðu félagsins.

Norræna félagið í Noregi hefur verið í vinabæjasamstarfi við íbúa í öðrum norrænum ríkjum frá árinu 1919. Samskipti við Íslendinga og aðra Norðurlandabúa eru í gegnum vinabæjasamstarf, nemendaheimsóknir, Nordjobb og styrkjaáætlanir. Norræna félagið í Noregi veitir árlega styrki til Íslendinga sem stunda nám í norskum lýðháskólum eða eru í fagnámi í Noregi.

Íslendingar sem vilja flytja til Noregs geta fengið upplýsingar um aðstæður þar hjá Norræna félaginu og hjá upplýsingaþjónustunni Halló Norðurlönd. Hjá henni hefur í haust verið haldið námskeið fyrir rúmlega 300 Íslendinga sem vilja flytja til annars norræns ríkis, fyrst og fremst til Noregs. Norræna félagið í Noregi getur með stuttum fyrirvara boðið námskeið um aðstæður þar í landi til búsetu og starfa, skv. upplýsingum Norræna félagsins. Í undirbúningi er einnig að bjóða Íslendingum upp á námskeið í norsku.

Skv. upplýsingum á heimasíðunni kostar vinamerkið „Norrænir vinir á Íslandi" 30 kr. norskar með sendingarkostnaði. Hægt er að panta merkið á www.norden.no, foreningen@norden.no eða í síma +47 22 51 67 60. Ágóði rennur óskiptur til stuðnings við Íslendingana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert