Herferð í Noregi fyrir íslensk börn og unglinga

Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni.
Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi hef­ur látið búa til vina­merki sem verða seld og ágóðanum varið til að styðja þátt­töku ís­lenskra barna og ung­linga í nor­rænu sam­starfi á næsta ári. Þetta kem­ur fram á heimasíðu Nor­ræna fé­lags­ins.

Á heimasíðunni seg­ir að í fjár­málakrepp­unn­ar á Íslandi hafa fjöl­marg­ir Norðmenn lýst yfir vilja til að aðstoða ís­lenska vini. Þess vegna hafi Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi ákveðið að láta gera vina­merki - „Nor­ræn­ir vin­ir á Íslandi" - í þess­um til­gangi.

„Nor­ræn vina­bæj­ar­mót, ung­menna­skipti, nem­enda­heim­sókn­ir, skóla­búðir og starfs­dval­ir í öðrum lönd­um, allt slíkt kost­ar Íslend­inga nú mun meira en áður vegna geng­is­hruns ís­lensku krón­unn­ar. Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi vill leggja sitt að mörk­um til þess að ung­ir Íslend­ing­ar verði ekki út und­an í nor­rænu sam­starfi. Í heimi mik­illa og óvæntra breyt­inga er mik­il­vægt að halda nor­rænu sam­starfi virku og að það reyn­ist stöðugur sam­starfs­vett­vang­ur fyr­ir sam­eig­in­leg­ar lausn­ir,“ seg­ir á heimasíðu fé­lags­ins.

Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi hef­ur verið í vina­bæja­sam­starfi við íbúa í öðrum nor­ræn­um ríkj­um frá ár­inu 1919. Sam­skipti við Íslend­inga og aðra Norður­landa­búa eru í gegn­um vina­bæja­sam­starf, nem­enda­heim­sókn­ir, Nor­djobb og styrkja­áætlan­ir. Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi veit­ir ár­lega styrki til Íslend­inga sem stunda nám í norsk­um lýðhá­skól­um eða eru í fagnámi í Nor­egi.

Íslend­ing­ar sem vilja flytja til Nor­egs geta fengið upp­lýs­ing­ar um aðstæður þar hjá Nor­ræna fé­lag­inu og hjá upp­lýs­ingaþjón­ust­unni Halló Norður­lönd. Hjá henni hef­ur í haust verið haldið nám­skeið fyr­ir rúm­lega 300 Íslend­inga sem vilja flytja til ann­ars nor­ræns rík­is, fyrst og fremst til Nor­egs. Nor­ræna fé­lagið í Nor­egi get­ur með stutt­um fyr­ir­vara boðið nám­skeið um aðstæður þar í landi til bú­setu og starfa, skv. upp­lýs­ing­um Nor­ræna fé­lags­ins. Í und­ir­bún­ingi er einnig að bjóða Íslend­ing­um upp á nám­skeið í norsku.

Skv. upp­lýs­ing­um á heimasíðunni kost­ar vina­merkið „Nor­ræn­ir vin­ir á Íslandi" 30 kr. norsk­ar með send­ing­ar­kostnaði. Hægt er að panta merkið á www.nor­d­en.no, for­en­ingen@nor­d­en.no eða í síma +47 22 51 67 60. Ágóði renn­ur óskipt­ur til stuðnings við Íslend­ing­ana.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert