Kjölur varar við lokun Sels

Stjórn Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, varar við lokun hjúkrunardeilarinnar í Seli við Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA), en stjórn FSA ákvað fyrir skemmstu að loka deildinni um áramótin og flytja þá 12 sjúklinga, sem þar eru, á öldrunardeild FSA í Kristnesi í Eyjafirði.

Ályktun sem stjórn Kjalar sendi frá sér síðdegis hljóðar svo:

„Lokun deildarinnar og flutningur skjólstæðinga hennar hefur viðtæk áhrif svo sem á hjúkrun sjúklinga í heimahúsum og endurhæfingu sjúklinga þar sem bið eftir henni lengist og veldur það öllu samfélaginu tjóni. Að auki kemur það þvert á stefnu í öldrunarmálum að fleiri einstaklingar deili herbergjum saman á öldrunarheimilum.

Sú ákvörðun stjórnenda FSA að hætta starfssemi í Seli með svo skömmum fyrirvara hefur í för með sér uppsagnir og verulega skerðingu á þjónustu og gengur þvert á það sem nú er brýnast að gera, stórefla velferðarþjónustuna og styrkja öryggisnet fjölskyldnanna.

Stjórn KJALAR stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, skorar á stjórnendur FSA að draga ákvörðun sína til baka og leita annarra leiða til hagræðingar í samráði við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, samtök launafólks, fjöldahreyfingar sjúklinga, öryrkja, eldri borgara og annarra aðila sem hagsmuna hafa að gæta varðandi gæði og skilvirkni heilbrigðiskerfisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert