KPMG vill rannsókn á störfum fyrir Glitni

KPMG vill að fenginn verði sérstakur óháður aðili til að rannsaka þau verkefni sem KPMG sinnti fyrir skilanefnd gamla Glitnis í kjölfar bankahrunsins.

Í kjölfar neyðarlaga sem Alþingi setti vegna bankakreppunnar fól Fjármálaeftirlitið skilanefndum Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. að ráða óháðan aðila til að kanna ákveðin skilgreind atriði í aðdraganda þess að ofangreind lög voru sett eða aftur til 1. september 2008.

Af hálfu skilanefndar Glitnis banka hf. var KPMG falið að vinna að verkinu og hefur það verið unnið í samráði við sérstakan ábyrgðarmann frá FME. KPMG hf. er ekki endurskoðandi Glitnis banka hf.

Gagnrýnt hefur verið að KPMG hafi verið fengið til að vinna verkefnið en KPMG er endurskoðandi margra stærstu eiganda gamla Glitnis. KPMG endurskoðar félög sem áttu um helming hlutafjár gamla Glitnis eða um 48%. Þar á meðal eru Stoðir, áður FL-Group. Stærsti eigandi FL-Group er Baugur en KPMG er einnig endurskoðandi Baugs.

Í tilkynningu frá Sigurði Jónssyni, framkvæmdastjóra KPMG segir að starfsmenn KPMG hafi lagt sig fram um að framkvæma skoðunina á faglegum forsendum og jafnframt samkvæmt ströngustu kröfum KPMG International. „Til að tryggja að könnunin og niðurstöður hennar séu yfir allan vafa hafnar, hefur KPMG farið þess á leit við skilanefnd Glitnis, að fenginn verði sérstakur óháður aðili til að rannsaka þá þætti málsins sem skilanefnd telur ástæðu til,“ segir í tilkynningu forstjóra KPMG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert