KPMG vill rannsókn á störfum fyrir Glitni

KPMG vill að feng­inn verði sér­stak­ur óháður aðili til að rann­saka þau verk­efni sem KPMG sinnti fyr­ir skila­nefnd gamla Glitn­is í kjöl­far banka­hruns­ins.

Í kjöl­far neyðarlaga sem Alþingi setti vegna bankakrepp­unn­ar fól Fjár­mála­eft­ir­litið skila­nefnd­um Glitn­is banka hf., Lands­banka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. að ráða óháðan aðila til að kanna ákveðin skil­greind atriði í aðdrag­anda þess að of­an­greind lög voru sett eða aft­ur til 1. sept­em­ber 2008.

Af hálfu skila­nefnd­ar Glitn­is banka hf. var KPMG falið að vinna að verk­inu og hef­ur það verið unnið í sam­ráði við sér­stak­an ábyrgðarmann frá FME. KPMG hf. er ekki end­ur­skoðandi Glitn­is banka hf.

Gagn­rýnt hef­ur verið að KPMG hafi verið fengið til að vinna verk­efnið en KPMG er end­ur­skoðandi margra stærstu eig­anda gamla Glitn­is. KPMG end­ur­skoðar fé­lög sem áttu um helm­ing hluta­fjár gamla Glitn­is eða um 48%. Þar á meðal eru Stoðir, áður FL-Group. Stærsti eig­andi FL-Group er Baug­ur en KPMG er einnig end­ur­skoðandi Baugs.

Í til­kynn­ingu frá Sig­urði Jóns­syni, fram­kvæmda­stjóra KPMG seg­ir að starfs­menn KPMG hafi lagt sig fram um að fram­kvæma skoðun­ina á fag­leg­um for­send­um og jafn­framt sam­kvæmt ströngustu kröf­um KPMG In­ternati­onal. „Til að tryggja að könn­un­in og niður­stöður henn­ar séu yfir all­an vafa hafn­ar, hef­ur KPMG farið þess á leit við skila­nefnd Glitn­is, að feng­inn verði sér­stak­ur óháður aðili til að rann­saka þá þætti máls­ins sem skila­nefnd tel­ur ástæðu til,“ seg­ir í til­kynn­ingu for­stjóra KPMG.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert