Lýsa yfir fullum stuðningi við formanninn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar Friðrik Tryggvason

Stjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lýsir fullum stuðningi við formann Samfylkingarinnar og þingflokk í þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að og framundan eru við endurreisn efnahagslífsins. Einnig leggur stjórnin áherslu á mikilvægi þess að hafinn verði undirbúningur aðildarviðræðna við ESB og samningsmarkmið ákveðin, síðan verði farið í samningsviðræður og niðurstöður þeirra bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, að því er segir í ályktun stjórnarinnar.

„Stjórn kjördæmisráðsins fagnar þeirri stefnubreytingu stjórnar RÚV að áfram verði reknar svæðisstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

Möguleikar til uppbyggingar í framleiðslu og gjaldeyrisskapandi atvinnu liggja fyrst og fremst á landsbyggðinni. Oft var þörf en nú er nauðsyn að nýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru til vaxtar og uppbyggingar við nýtingu þeirra gæða. Í því sambandi þarf m.a. að horfa til orkunýtingar, sjávarútvegs, landbúnaðar og ferðaþjónustu.

Stjórn kjördæmisráðsins leggur áherslu á mikilvægi þess að staðið verði við boðaðar flýtiframkvæmdir í verklegum framkvæmdum m.a. í samgöngumálum á landsbyggðinni en þær voru hluti mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar í aflaheimildum.

Stjórn kjördæmisráðsins áréttar að standa verði vörð um byggð og mannlíf á landinu öllu, þess vegna þarf að tryggja stöðu sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið vörð um mikilvæga þætti velferðarkerfisins," að því er segir í ályktun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert