Stjórn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista, fagnar yfirlýsingu Jafnréttisstofu þess efnis að sjálfkrafa skráning ungabarna í trúfélag móður, standist tæpast ákvæði jafnréttislaga.
Lögfræðingur jafnréttisstofu telur að breyta þurfi því ákvæði laga um skráð trúfélög, sem kveður á um að barn skuli frá fæðingu skráð í sama trúfélag og móðir þess. Lögfræðingur Jafnréttisstofu segir að þetta ákvæði sé tæpast í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Ekki séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag.
Stjórn Siðmenntar fagnar álitinu og segir það í samræmi við þá skoðun stjórnarinnar að ekki eigi að skrá börn í trúfélög eða veraldleg lífsskoðunarfélög foreldra því börn á ekki að setja í bás eftir skoðunum foreldra þeirra.
Siðmennt telur að við 16 ára aldur, hið fyrsta, sé rétt að ungmenni geti skráð sig formlega í þessi félög, því forsenda slíkrar ákvörðunar sé ákveðinn þroski, sjálfstæði og menntunarstig.
„Líkt og með stjórnmálaflokka á það ekki að vera í valdi foreldra að skrá börn sín í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög, heldur á það að vera sjálfstæð ákvörðun hvers einstaklings þegar viðkomandi hefur aldur til. Jafnframt álítur stjórn félagsins að þessi tillaga Jafnréttisstofu sé tímamótatillaga í átt til afnáms mismununar á rétti foreldra eftir kyni þeirra,“ segir í tilkynningu Siðmenntar.