Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins spurði fjármálaráðherra hvort honum hefði verið kunnugt um að það hefði verið hægt að flytja ábyrgðir vegna Icesave í breska lögsögu gegn 200 milljóna punda tryggingu. Hún vísaði til misvísandi fullyrðinga einstakra ráðherra og seðlabankastjóra um málið en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún spyr. Björgólfur Thor Björgólfsson hefur haldið því fram að ráðherrann og seðlabankastjóri hafi vitað um tilboðið. Árni M. Mathiesen sagði að svarið væri einfalt og það væri nei. Það væri ekki hægt að orða það á skýrari hátt.
Ennfremur er minnst á 200 milljón pund í samtali Árna og Alistair Darling fjármálaráðherra Breta en ráðherrann endurtók, það sem áður hefur komið fram að hann hafi talið að þar sé vísað til fyrirgreiðslu sem Landsbankinn hafi beðið um hjá Seðlabankanum. Siv sagði að svör ráðherrans í samtalinu við Darling hefðu verið fyrir neðan allar hellur . Það væri skiljanlegt að ráðherrann hefði farið að efast um Íslendinga eftir viðtalið. Árni M. Mathiesen segir þingmanninn greinilega hafa betri innsýn í hugarheim þeirra sem beiti hryðjuverkalögum en hann sjálfur.
Örfáir voru á þingpöllum sem voru opnir almenningi þrátt fyrir að öryggisgæsla hafi verið hert vegna atburða gærdagsins.