Ýsa sem fékkst í ferð skólaskipsins Drafnar skammt frá Reykjavík í síðustu viku reyndist sýkt af sama sníkjudýri og lagst hefur á síld víða við land. Þessi sýking hefur minni áhrif á ýsu en síld, bæði hold og líffæri önnur en nýru, og ýsan drepst ekki af sýkingunni, sem er þekkt í náttúrunni.
Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, staðfesti þessar niðurstöður í gær. Hann segir að komið hafi verið með sjö eða átta ýsur og þær hafi verið sýktar. Þessir fiskar hafi fengist innarlega í Flóanum, utan hefðbundinnar veiðislóðar, og ekki sé ólíklegt að sýkti fiskurinn hafi leitað á grynnra vatn til að ná jafnvægi í seltubúskap nær ferskvatni. Fiskifræðingarnir Þorsteinn Sigurðsson og Jónbjörn Pálsson vöruðu báðir við því í gær að of víðtækar ályktanir yrðu dregnar af þessum niðurstöðum. Hugsanlega hefðu þessi sýni ekki komið til Hafró ef menn væru ekki á varðbergi eftir að sýking fannst í síld.