Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í 30 daga fangelsi fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Þá var maðurinn sviptur ökuréttindum ævilangt.
Þetta er í þriðja sinn á sex árum sem maðurinn er tekinn fyrir ölvunarakstur. Hann játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi.
Samkvæmt sakavottorði var maðurinn dæmdur árið 2002 til greiðslu sektar vegna ölvunaraksturs og sviptur ökurétti í 12 mánuði. Þá gekkst hann undir sektargerð vegna hraðaksturs og sviptingaraksturs árið 2003. Loks gekkst maðurinn undir viðurlagaákvörðun vegna ölvunaraksturs og fíkniefnabrots árið 2004 og var þá sviptur ökurétti í 4 ár.