Refsifangi á Litla Hrauni er grunaður um að hafa sent tilkynningu um andlát samfanga síns en tilkynningin birtist í Morgunblaðinu í morgun. Birt er reikningsnúmer með tilkynningunni í þeim tilgangi að fé verði lagt inn á reikninginn.
Í Morgunblaðinu í dag birtist tilkynning um andlát Hákons Rúnars Jónssonar en hann afplánar nú nokkurra mánaða fangelsisdóm á Litla Hrauni. Í auglýsingunni segir að maðurinn hafi látist eftir langvarandi veikindi og er þeim sem vilja minnast hans bent á reikningsnúmer. Reikningurinn og kennitala sem upp er gefin er í eigu Sigurbjörns Adams Baldvinssonar, fanga á Litla Hrauni en hann afplánar dóm fyrir margháttuð afbrot.
Auglýsingin er uppspuni frá rótum og virðist hafa verið send frá Litla Hrauni í þeim tilgangi einum að svíkja út fé af fólki.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri segist ekki muna eftir öðrum eins ósóma. „Þetta er með því ósmekklegra sem ég hef séð. Málið verður rannasakað til hlítar. Strax í morgun voru tölvur fanga sem grunaðir eru um verknaðinn, haldlagðar og verða þær skoðaðar. Þá verða teknar skýrslur af föngunum en málið verður síðan afhent lögreglu,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.
Páll segir að fangar hafi tölvur á herbergjum sínum og takmarkaðan aðgang að netinu vegna fjarnáms en þá undir eftirliti. Hins vegar færist í vöxt að svokölluðum netpungum sé smyglað inn í fangelsið, en þeir tengja tölvur við netið með svokölluðu 3G sambandi. Páll segir að töluvert sé um að slíkir netpungar séu haldlagðir. Sama á við um farsímanotkun fanga, farsímar eru bannaðir innan veggja fangelsanna. Nokkrir símar eru haldlagðir í hverjum mánuði.
Páll Winkel segir að agaviðurlög verði ákveðin gagnvart föngunum þegar málið hafi verið rannsakað til hlítar. Þá segir hann ekki ólíklegt að brot fanganna leiði til endurskoðunar á tölvunotkun refsifanga í fangelsum landsins.
Morgunblaðinu þykir miður að hafa verið blekkt með þessum hætti. Reikningnum sem nefndur er í auglýsingunni, hefur verið lokað.