Auglýsti andlát samfanga síns

Refsifangi á Litla Hrauni er grunaður um að hafa sent til­kynn­ingu um and­lát sam­fanga síns en til­kynn­ing­in birt­ist í Morg­un­blaðinu í  morg­un. Birt er reikn­ings­núm­er með til­kynn­ing­unni í þeim til­gangi að fé verði lagt inn á reikn­ing­inn.

Í Morg­un­blaðinu í dag birt­ist til­kynn­ing um and­lát Hákons Rún­ars Jóns­son­ar en hann afplán­ar nú nokk­urra mánaða fang­els­is­dóm á Litla Hrauni. Í aug­lýs­ing­unni seg­ir að maður­inn hafi lát­ist eft­ir langvar­andi veik­indi og er þeim sem vilja minn­ast hans bent á reikn­ings­núm­er. Reikn­ing­ur­inn og kennitala sem upp er gef­in er í eigu Sig­ur­björns Adams Bald­vins­son­ar, fanga á Litla Hrauni en hann afplán­ar dóm fyr­ir marg­háttuð af­brot.

Aug­lýs­ing­in er upp­spuni frá rót­um og virðist hafa verið send frá Litla Hrauni í þeim til­gangi ein­um að svíkja út fé af fólki. 

Páll Win­kel, fang­els­is­mála­stjóri seg­ist ekki muna eft­ir öðrum eins ósóma. „Þetta er með því ósmekk­legra sem ég hef séð. Málið verður ranna­sakað til hlít­ar. Strax í morg­un voru tölv­ur fanga sem grunaðir eru um verknaðinn, hald­lagðar og verða þær skoðaðar. Þá verða tekn­ar skýrsl­ur af föng­un­um en málið verður síðan af­hent lög­reglu,“ seg­ir Páll Win­kel, fang­els­is­mála­stjóri.

Páll seg­ir að fang­ar hafi tölv­ur á her­bergj­um sín­um og tak­markaðan aðgang að net­inu vegna fjar­náms en þá und­ir eft­ir­liti. Hins veg­ar fær­ist í vöxt að svo­kölluðum net­p­ung­um sé smyglað inn í fang­elsið, en þeir tengja tölv­ur við netið með svo­kölluðu 3G sam­bandi. Páll seg­ir að tölu­vert sé um að slík­ir net­p­ung­ar séu hald­lagðir. Sama á við um farsíma­notk­un fanga, farsím­ar eru bannaðir inn­an veggja fang­els­anna. Nokkr­ir sím­ar eru hald­lagðir í hverj­um mánuði.

Páll Win­kel seg­ir að agaviður­lög verði ákveðin gagn­vart föng­un­um þegar málið hafi verið rann­sakað til hlít­ar. Þá seg­ir hann ekki ólík­legt að brot fang­anna leiði til end­ur­skoðunar á tölvu­notk­un refsifanga í fang­els­um lands­ins.

Morg­un­blaðinu þykir miður að hafa verið blekkt með þess­um hætti. Reikn­ingn­um sem nefnd­ur er í aug­lýs­ing­unni, hef­ur verið lokað.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert