Baráttuhópur sem berst fyrir því að fá tap sitt í peningabréfum Landsbanka bætt opnar í dag, á alþjóðlegum mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, netsíðuna www.rettlaeti.is. Réttlæti er lykilorð í baráttu hópsins sem nú telur um 500 aðila sem allir töpuðu rúmum þriðjungi sparnaðar í Landsbanka í kjölfar bankahrunsins mikla.
Netsíðunni er ætlað að vera upplýsingaveita en jafnframt verður þar fjallað um baráttumál hópsins. Einnig er þar mögulegt að skrá sig í baráttuhópinn. Stjórnvöldum hefur verið gefinn frestur til 15. desember til að koma til viðræðna við hópinn. Ef það verður ekki gert mun hópurinn grípa til aðgerða, segir í tilkynningu.