Bílgreinasambandinu hefur borist afrit af bréfi, sem ríkisskattstjóri hefur sent öllum bifreiðaumboðum landsins þar sem óskað er eftir uppfærðum verðlistum á nýjum bílum. Segir Bílgreinasambandið að tilgangur ríkisskattstjóra sé að uppfæra þann grunn sem hlunnindaskattur er reiknaður útfrá í þeim tilfellum sem launþegi hefur afnot af bifreið frá vinnuveitanda sínum.
„Er það algjörlega ófært og í andstöðu við stefnu ríkisstjórnar um að koma til móts við heimilin í landinu að uppreikna hlunnindaskatt af bifreiðum miðað við verðlista bifreiðaumboðana eins og hann er í dag. Engin kaupir bifreiðar á því verði sem birtist í verðlistum eins og sölutölur sýna, hvorki fyrirtæki eða einstaklingar. Verð á nýjum bílum í dag hefur hækkað á bilinu 40 til 60% vegna stöðu krónunnar," segir í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.
Segir sambandið að fari ríkisskattstjóri þá leið að miða við verðlista bifreiðaumboðana eins og hann lítur út um þessar mundir muni það hafa í för með sér allt að tvöföldun á þeim skatti, sem nú sé innheimtur af aðilum sem hafa bifreið sem hluta af kjörum sínum hjá vinnuveitanda.
„Ríkisskattstjóri uppfærir þennan verðgrunn sinn einu sinni á ári þannig að allt næsta ár munu þeir aðilar er hafa bifreiðar til umráða frá vinnuveitanda greiða hlunnindaskatt miðað við verð á bílum sem engin keypti eða mun kaupa sem mun hafa mikil og neikvæð áhrif á fjárhag þeirra heimila er hafa hluta af kjörum sínum í gegnum bifreiðaafnot.
Bílgreinasambandið bendir á að eðlilegra er að miða við verð eins og það var um síðustu áramót og að þessi grunnur verði endurskoðaður um mitt næsta ár ef gengi íslensku krónunnar hefur náð eðlilegum stöðugleika," segir síðan.