Enn langt í land 60 árum eftir að Mannréttindayfirlýsingin tók gildi

Börn úr Lundarskóla lesa úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Ketilhúsinu …
Börn úr Lundarskóla lesa úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Ketilhúsinu í dag. Skapti Hallgrímsson

Því fer enn fjarri að sú draumsýn, sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna boðaði, hafi orðið að veruleika. Þetta sagði Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur á hátíðarsamkomu í dag en 60 ár eru í dag frá því yfirlýsingin tók gildi. Akureyrarbær, Háskólinn og Jafnréttisstofa stóðu að samkomunni.

Ýmislegt var á dagskrá á hátíðarsamkomunni. Nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri fluttu tónlistaratriði, Kristín Ástgeirsdóttir, jafnréttisstýra ávarpaði gesti, nemendur úr 8. bekk Lundarskóla lásu úr Mannréttindayfirlýsingunni og nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri kynna verkefni sín um mannréttindi. Þá ávarpaði Þorlákur Axel Jónsson samkomuna, en hann er formaður Samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrar. Sýnd var heimildarmynd um mannréttindi ólíkra hópa sem unnin var af 8. bekk í Lundarskóla og þá er þess að geta, síðast en ekki síst, að Margrét Heinreksdóttir, emeritus, flutti ávarp.

Margrét segir Mannréttindayfirlýsingu Sþ vafalaust eina af mikilvægustu arfleifðum 20. aldarinnar; „samþykkt hennar markaði tímamót í sögu mannréttindabaráttu um veröld víða, lagði grunn að og varð uppistaða í hinum sterka vefnaði mannréttindaákvæða þjóðaréttarins sem og landsréttar einstakra ríkja. Því fer þó ennþá fjarri að sú draumsýn, sem hún boðaði, hafi orðið að veruleika. Enn eru mannréttindi virt að vettugi víða um heim,“ sagði hún.

Margrét benti á að á hverjum degi sannist þau orð í formála yfirlýsingarinnar “hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt, hefur slíkt haft í för með sér siðlausar athafnir, er ofboðið hafa samvisku mannkynsins” - og að “mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.”

Þrátt fyrir að flestir Íslendingar þekki yfirlýsinguna vel minnti Margrét Heinreksdóttir á þá staðreynd að því færi fjarri að hún hafi náð til alls þorra mannkyns. „Árið 1989 var talið að einungis um 1 % jarðarbúa þekktu hana. Vissulega hefur útbreiðslu hennar fleygt fram síðan, meðal annars með tilkomu heimsnetsins, en mikið vantar enn á vitund fólks um þau réttindi, sem þar er kveðið á um. Yfirlýsingin hefur verið þýdd á 360 tungumál og er kennd í skólum á öllum stigum víða um heim. Áhrif hennar hafa því orðið víðtæk og afstaða alþjóðasamfélagsins til mannréttinda hefur, þrátt fyrir allt, tekið grundvallarbreytingum á þessum sextíu árum.“

Í gær lauk 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og Margrét notaði tækifærið á hátíðarsamkomunni og minntist sérstaklega Eleanor Roosevelt, forsetafrú Bandaríkjanna sem að miklu leyti þakkað hve vel gekk að koma yfirlýsingunni saman. „Hún naut óskoraðrar virðingar og keyrði starfið skipulega áfram af slíkum krafti að rómað var. Hún hafði ótrúlegt vinnuþrek og vílaði ekki fyrir sér að leggja nótt við dag þegar á þurfti að halda. Orðstír hennar á alþjóðavettvangi var og slíkur, að fylgst var með starfinu af miklum áhuga víða um heim. Sjálf lofaði hún aðra fyrir þeirra stóra þátt í starfinu, ekki síst kínverska fulltrúann, sem hafði átt mikilsverðan þátt í að skapa það andrúmsloft sem þurfti til að halda liðinu saman, meðal annars með því að hafa á takteinum fyrir öll tækifæri kínverska málshætti, sem léttu mönnum lundina.“

Kristín Ástgeirsdóttir og Margrét Heinreksdóttir í Ketilhúsinu. Þær fluttu báðar …
Kristín Ástgeirsdóttir og Margrét Heinreksdóttir í Ketilhúsinu. Þær fluttu báðar ávarp. Skapti Hallgrímsson
Frá hátíðarsamkomunni í dag.
Frá hátíðarsamkomunni í dag. Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert