Farið yfir störf KPMG fyrir skilanefnd Glitnis

mbl.is/Sverrir

Farið verður yfir ákveðin verk endurskoðunarfyrirtækisins KPMG innan Glitnis og annað fyrirtæki fengið til starfa með nefndinni vegna ásakana um vanhæfi KPMG. Þetta kemur fram í skriflegu svari Árna Tómassonar, formanns skilanefndarinnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Skilanefndum föllnu bankanna var í byrjun nóvember gert að ráða óháða sérfræðinga til að rannsaka hvort vikið hefði verið frá innri reglum þeirra, lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, lögum um verðbréfaviðskipti, almennum hegningarlögum, svo og öðrum réttarheimildum við hrun bankanna. Skilanefnd Glitnis valdi KPMG með samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Sigurður Jónsson, forstjóri KPMG, er faðir Jóns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stoða, sem var kjölfestufjárfestir Glitnis. „Skilanefndin hefur ekki haft ástæðu til að efast um hæfni eða óhæfi KPMG,“ segir Árni. Fundað verði með nýjum aðila í dag og því ekki hægt að upplýsa hver það er. Í yfirlýsingu frá forstjóra KPMG stendur að starfsmenn þess hafi lagt sig fram um að framkvæma skoðunina á faglegum forsendum og samkvæmt ströngustu kröfum KPMG International.

Árni segir nýja endurskoðendur ekki hafa áhrif á uppgjörið, utan þess sem skýrsluvinnslu seinki eitthvað.

Fjármálaeftirlitið svaraði ekki hvort það væri áfellisdómur yfir störfum þess að samþykkja KPMG innan Glitnis. Jónas Fr. Jónsson forstjóri þess svarar skriflega að KPMG sé alþjóðlegt, virt endurskoðunarfyrirtæki „og ekki hefur verið talin ástæða til annars en að treysta því að þar séu fagleg vinnubrögð höfð í heiðri. Hins vegar taldi Fjármálaeftirlitið og skilanefnd Glitnis rétt að bregðast við þeirri tortryggni sem hafði myndast með því að fá annan aðila til að skoða ákveðna þætti verksins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka