Framsýn semur við sveitarfélögin

Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags
Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar Framsýnar- stéttarfélags Þingeyinga og Verkalýðsfélags Þórshafnar skrifuðu í dag undir nýjan kjarasamning við Launanefnd sveitarfélaga.

Samningurinn byggir að miklu leiti á þeim samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu á milli opinberra félaga og Launanefndar sveitarfélaga en með nokkrum sérákvæðum. 

Gildistími er frá 1. desember síðastliðnum til 31. ágúst 2009. Meðaltalshækkun launa á samningstímanum er 10,5%. Öll laun hækka um 20.300 krónur á mánuði en að auki færast sérstakar greiðslur inn í launataxta.

Vinnuveitendur greiða 0,13% framlag í endurhæfingarsjóð sem er nýtt framlag til endurhæfingar. Þetta á að verða öflug stoð til að takast á við vaxandi örorku og styðja þá, sem lenda í skertri vinnugetu til áframhaldandi starfa á vinnumarkaði.

Skoða á framboð endurmenntunar á samningstímanum og hvernig starfsmenntun er metin til launa. Þá náðist að skerpa á grein varðandi greiðslu vegna ferðatíma þegar starfsmenn ferðast með og annast nemendur og/eða skjólstæðinga á ferðalögum.

Samningurinn nær til starfsmanna sveitarfélaganna á félagssvæðum Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar. Samningurinn nær einnig til starfsmanna Hvamms, dvalarheimilis aldraðra á Húsavík en þeir hafa til þessa ekki verið aðilar að samningi sveitarfélaga.

Nýr kjarasamningur og sérákvæði hans verða kynnt á næstu dögum þeim félagsmönnum sem starfa eftir samningnum. Samninganefnd Framsýnar þingar á föstudag og ákveður með hvaða hætti samningurinn verður kynntur og hvernig atkvæðagreiðsla um samninginn muni fara fram.

Leikskólakennarar og tónlistarkennarar semja

Félag leikskólakennara og launanefnd sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Samningurinn er í anda kjarasamninga sem gerðir hafa verið á síðustu dögum. Laun leikskólakennara hækka um 20.300 krónur á mánuði. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og liggur niðurstaða fyrir innan tíu daga.

Þá gengu Félag tónlistarkennara og launanefnd sveitarfélaga frá hliðstæðum samningi í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert