Ísland gæti keppt um að verða 28. ríki ESB

Rehn ávarpaði fundargesti í HR í morgun í gegnum fjarfundabúnað …
Rehn ávarpaði fundargesti í HR í morgun í gegnum fjarfundabúnað frá Ósló. mbl.is/Árni Sæberg

Ákveði Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu gæti svo farið að Íslendingar kepptu við Króatíu um hvort landið yrði 28. ríkið til þess að ganga í sambandið.  Þetta kom fram í máli Olli Rehn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á fundi sem sendur var í gegnum fjarfundabúnað í Háskólanum í Reykjavík í morgun.  

Á fundinum fór Rehn yfir stækkunarmál Evrópusambandsins. Hann ræddi m.a. möguleika ríkja á vesturhluta Balkanskagans. Þar kom m.a. fram að Króatía kæmist líklega á lokastig í aðildarviðræðum við ESB á næsta ári. Rehn  varpaði fram þeirri spurningu hvort hægt væri að stytta Íslandi leið að Evrópusambandinu, óskaði Ísland aðildar.   Hann sagði að venjulega segði hann vinum sínum, sem spyrðu hvort hægt væri að stytta sér leið að ESB, að það væri ekki hægt. Sökum lýðræðishefðar á Ísland, þróaðs efnahags og þess að Ísland hefði þegar innleitt stóran hluta evrópulöggjafar í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES), gæti umsókn héðan hlotið hraðari afgreiðslu en ella. Hann vildi þó ekki nefna ákveðin tímamörk.  

Rehn lagði hins vegar áherslu á að það færi eftir vilja almennings og leiðtoga á Íslandi hvernig þessi mál þróuðust. Noregur og Ísland væru meðal helstu vinaríkja Evrópusambandsins.

„Það verða vissulega áskoranir að takast á við,“ sagði Rehn um mögulega aðildarumsókn Íslendinga og nefndi fiskveiðar sem dæmi. Hann kvaðst þó viss um að hægt yrði að finna lausnir í þessum efnum. Umbætur yrðu gerðar á fiskveiðistefnu ESB á næstu árum. „Við horfum til reynslu Íslendinga og Norðmanna þegar að þessu kemur,“ sagði Rehn. Aukin áhersla yrði lögð á svæðisbundna stjórnun fiskveiða innan ESB.   

 Rehn kvaðst finna til með Íslendingum í þeirri kreppu sem þjóðin glímdi nú við. „Ég finn persónulega fyrir þessu,“ sagði Rehn, en á tímum efnahagskreppu í Finnlandi á tíunda áratugnum hefði hann unnið sem ráðgjafi hjá finnskum stjórnvöldum. „Ég fæ enn martraðir þegar ég hugsa til þessa tíma. Ég myndi ekki vilja að landið mitt gengið í gegnum slíkt aftur,“ sagði Rehn.

Lausn Finna á þessum tíma hafi verið að sækja um aðild að ESB. „Ég sé ekki eftir því. Við gátum nýtt ESB-aðildina til þess að koma á stöðugleika í efnahagsmálum,“ sagði Rehn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert