Persson: Íslendingar mega ekki bíða

Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Reuters

Gör­an Pers­son, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, seg­ir að Íslend­ing­ar geti kom­ist í gegn­um krepp­una. Það muni hins veg­ar verða erfitt. Pers­son seg­ir mik­il­vægt að menn grípi þegar í stað til aðgerða þótt þær kunni að verða óvin­sæl­ar. Íslend­ing­ar megi ekki bíða, þeir verði að taka frum­kvæðið.

Þetta kom fram í fyr­ir­lestri Pers­sons í Hátíðarsal Há­skóla Íslands í dag. Pers­son sagði að hann teldi ekki að Íslend­ing­ar gætu leng­ur haldið úti jafn litl­um gjald­miðli og ís­lenska krón­an er og vísaði m.a. til verðbólg­un­ar hér á landi. Þá sagði hann, að Svíþjóð væri í allt öðrum spor­um í dag er landið hefði ekki gengið í Evr­ópu­sam­bandið.

Pers­son er kom­inn hingað til lands á veg­um Sam­taka fjár­festa. Í fyr­ir­lestr­in­um,  sem bar yf­ir­skrift­ina Lær­dóm­ur Svía af fjár­málakreppu tí­unda ára­tug­ar­ins – byrðunum dreift og nýj­ar von­ir vaktar, fjallaði Pers­son m.a. um þá bankakreppu, sem Sví­ar lentu í við upp­haf 10. ára­tug­ar­ins. Sagði Pers­son, að Sví­um hafi tek­ist að kom­ast í gegn­um krepp­una og það muni Íslend­ing­ar einnig gera. Hins veg­ar séu aðstæður á Íslandi í dag gjör­ólík­ar því sem var í Svíþjóð fyr­ir um 15 árum. Raun­ar sé staðan sé allt önn­ur á alþjóðavett­vangi og í fyrsta sinn finni menn fyr­ir sam­drætti um all­an heim.

Í fyr­ir­lestr­in­um kom fram að Sví­ar gengu í gegn­um mikl­ar efna­hagsþreng­ing­ar á ár­un­um up­p­úr 1990. Þær þreng­ing­ar sneru m.a. að bönk­un­um og sænsku fjár­mála­kerfi sem gekk í gegn­um veru­lega upp­stokk­un í kjöl­far erfiðleik­anna. Pers­son gegndi á þess­um tíma starfi fjár­málaráðherra í rík­is­stjórn Svíþjóðar og kom í hans hlut að ráða fram úr þeim erfiðleik­um sem að þjóðinni steðjuðu.

Menn grípi til aðgerða

Hann sagði, að Sví­ar hafi á sín­um tíma ákveðið að taka mál­in í sín­ar hend­ur og taka frum­kvæðið. Þeir hafi vitað það bet­ur en aðrir hvað átti að gera. Að sögn Pers­sons var ekki erfitt að sjá hvað ætti að gera, held­ur að gera það.

Sví­ar byrjuðu á banka­kerf­inu

Sænsk stjórn­völd byrjuðu á banka­kerf­inu, en Pers­son bend­ir á að það sé ekki hægt að bera það sam­an við Ísland nú þar sem aðstæður séu afar sér­stak­ar. Í raun hafi þar orðið stór­slys þegar bank­arn­ir urðu 10 sinn­um stærri en verg þjóðarfram­leiðsla.

Sví­ar þjóðnýttu bank­ana, seg­ir Pers­son og á end­an­um fengu þeir  all­ar krón­unn­ar til baka sem sænska ríkið greiddi fyr­ir skuld­ir bank­anna. Það sé hins veg­ar erfiðara fyr­ir Ísland.

Næst var tekið á fjár­lög­un­um. Það var erfiðast að sögn Pers­sons. Hann sagði að á Íslandi  muni hlut­irn­ir verða erfiðari.  Greiði Íslend­ing­ar alla verga þjóðarfram­leiðslu til að leysa bankakrepp­una muni greiðslu­byrðin aukast gríðarlega og vext­irn­ir ofan á það.

Næstu ár verða erfið

Pers­son sagði, að menn verði að reikna með erfiðum árum á næst­unni þar sem verg þjóðarfram­leiðsla muni minnka um­tals­vert. Neysl­an muni minnka sem og inn­flutn­ing­ur. At­vinnu­leysið mun hins veg­ar aukast og skera verði niður fjár­lög­in. 

Pers­son sagði, að Íslend­ing­ar gætu endað á því að fá lán til að greiða vext­ina af þeim lán­um sem þeir fengu til að greiða niður skuld­ir bank­anna. Það muni kalla á hærri skatta eða minni op­in­ber út­gjöld. Hins veg­ar sé ekki hægt að fá enda­laust lán til að greiða vexti af öðrum lán­um. Markaður­inn myndi á end­an­um refsa krón­unni harka­lega ef það ger­ist. Málið snú­ist um trú­verðug­leika og menn verði grípa til skyn­sam­legra aðgerða.

Pers­son sagðist  hafa gert það og orðið um leið hataðasti maður Svíþjóðar. Það hafi hins veg­ar verið þess virði. Ákveði Íslend­ing­ar að grípa til raun­hæfra aðgerða sendi það út þau boð, að Ísland vilji ráða ör­lög­um sín­um sjálft.


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert