Jólasveinn sem dillar mjöðmunum og syngur amerísk jólalög á svölum fjölbýlishúss hefur næstum því kostað nágrannastríð í virðulegu hverfi í Reykjavík. Slík dæmi koma upp á hverju ári um ofsaglaðar jólaskreytingar sem draga að sér múg og margmenni nágrönnum til hremmingar.
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir þetta dellu sem fer út í öfgar og sumir séu viðkvæmir fyrir þessum hávaða og ljósadýrð. Hann nefnir dæmi um fólk sem fékk sér blikkandi útgáfu af Stúf jólasveini sem skaust skrækjandi upp úr skorsteininum með jöfnu millibili. Íbúi í húsinu við hliðina íhugaði þá að fá sér haglabyssu og skjóta jólasveininn niður.
En Íslendingar eru fastheldnir á fleiri jólasiði og Sigurður Helgi fékk hótanir eftir að hafa stungið upp á því í í fyrra að húsfélög gætu bannað íbúm að elda kæsta skötu í fjölbýli á Þorláksmessu. Hann líkir lyktinni af kæstri skötu við hryðjuverkaárás á þefskynið og segir ólyktina sumstaðar loða við íbúðir og stigaganga langt fram á vor.