Rétt eftir miðnætti í nótt barst Slökkviliði Akureyrar tilkynning um mikinn eld við bæ í Arnarneshreppi norðan Akureyrar. Slökkviliðið hafði mikinn viðbúnað og strax af stað með þrjá dælubíla og um 19 tonn af vatni. Sex menn voru á bílunum og var viðbótarmannsskapur í viðbragðsstöðu ef á þyrfti að halda.
Þegar lögreglan kom á staðinn kom í ljós að ábúandi á bænum var að brenna rusli og taldi sig hafa til þess leyfi. Ingimar Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóri segir á vefsíðu Slökkviliðs Akureyrar að engar upplýsingar um leyfi til bruna hefði borist til slökkviliðsins né til lögreglu. Til stendur að kanna það mál nánar. „Það getur ekki verið eðlilegt að ábúendur til sveita losi sig við rusl eða annan úrgang með brennslu á víðavangi. Slíkt veldur ætíð hættu á alvöru eldsvoðum og óþarfa útköllum slökkviliðs,“ segir Ingimar á vefsíðu slökkviliðsins.