„Verði frumvarpið að lögum eins og það er nú sýnist mér það þýða 350-400 milljóna tekjutap af auglýsingasölu á ársgrundvelli fyrir Ríkisútvarpið,“ segir Páll Magnússon útvarpsstjóri um nýtt frumvarp er snýr að minni umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og hækkun útvarpsgjalda. Upphæðin sé um helmingsskerðing auglýsingatekna RÚV í sjónvarpi sé miðað við síðasta ár.
Páll segir að nákvæm upphæð tekjutaps fari eftir útfærslu einstakra atriða í frumvarpinu. „Í frumvarpinu segir að RÚV sé ekki heimilt að afla sér kostunar nema á stórviðburði,“ segir Páll. Það sé hins vegar nokkuð opið og eftirlátið þjónustusamningi á milli menntamálaráðuneytis og RÚV hverjar takmarkanirnar verði auk skilgreiningar á því hvað felist í stórviðburðum.
Hann segir of snemmt að fullyrða hvaða áhrif þessar breytingar hjá RÚV á auglýsingamarkaði hafi á starfsmannahald í auglýsingasölu, ekki sé þó ólíklegt að áhrifin verði einhver. Endurskoða þurfi sölustarfsemi og aðferðir töluvert.