Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitin á Hellu voru kallaðar út fyrir skömmu vegna bíls sem sat fastur í Akstaðaá á Þórsmerkurleið. Þrír menn voru í bílnum. Áin er alla jafna lítil en vegna leysinga er mun meira í henni en venjulega.
Mennirnir gátu hringt eftir aðstoð og fengu þeir fyrirmæli að halda kyrru fyrir í bílnum þar til aðstoð bærist, sem þeir og gerðu.
Lögreglan var fyrst á vettvang og var tekin sú ákvörðun að bíða eftir björgunarsveit sem kom á staðinn skömmu síðar og náði mönnunum á þurrt land. Þeir voru heilir á húfi.
Björgunarsveitir vinna nú að því að ná bílnum úr ánni en mikil rigning er á staðnum. Nokkuð mikið er í ám á svæðinu eftir hláku dagsins.