Alþingi samþykkti í dag frumvarp Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um starf sérstaks saksóknara sem á að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við bankahrunið.
Ráðherra upplýsti mbl.is í kvöld um að tveggja vikna umsóknarfrestur sé um starfið eftir að það verður auglýst og það verði gert eins fljótt og unnt er. Því má gera ráð fyrir því að embættið taki til starfa mjög fljótlega.
Samstaða var um frumvarpið og stóðu allir nefndarmenn í allsherjarnefnd að áliti og breytingartillögum, sem gerðar voru. Það var síðan samþykkt síðdegis í dag með 46 samhljóða atkvæðum.