Tækjaeign heimila fór vaxandi á árunum 2005 til 2007 samkvæmt rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. Algengustu heimilistækin voru ísskápur, þvottavél og örbylgjuofn. Mest var aukningin í eign á þurrkurum en árið 2005 áttu tæp 43% heimila slík tæki og tæp 54% árið 2007. Eign á myndbandsupptökuvélum og bátum virðist einnig vera algengari en áður.
Þá lækkaði hlutfall heimila, sem ekki á bíl. Árið 2005 voru um 11% heimila bíllaus, um 13% árið 2006 en tæp 9% árið 2007. Af þeim heimilum sem áttu bíl virtist þeim fjölga sem eiga fleiri en einn. Tæp 28% heimila áttu tvo bíla eða fleiri árið 2005 en þau voru um 30% árið 2006 og tæp 32% árið 2007.
Ekki urðu verulegar breytingar á sjónvarpseign landsmanna á þessu tímabili. Árið 2007 var sjónvarp ekki til á 3% heimila, tæplega 47% heimila voru með eitt sjónvarp, tæp 29% heimila með tvö og tæplega 22% með þrjú eða fleiri.
Um þriðjungur heimila í rannsókninni var áskrifandi að fréttablöðum og hefur hlutfallið lækkað síðustu ár. Tæp 20% heimila voru áskrifendur að bókum og tæp 30% að tímaritum og hafa þau hlutföll haldist nokkuð stöðug, að sögn Hagstofunnar.
Um 97% heimila voru með sjónvarp en aðeins rúm 80% greiddu áskrift að sjónvarpsstöð árið 2007. Þeim sem ekki greiða sjónvarpsáskrift hefur fjölgað, þeir voru rúm 14% árið 2005, tæp 20% árið 2006 og rúmlega 18% 2007. Um 40% kaupa áskrift að einni stöð og 40% að tveimur sjónvarpsstöðvum, en með sjónvarpsstöð er hér átt við þau fyrirtæki sem senda út sjónvarp en heimilin geta síðan keypt áskrift að einni eða fleiri rásum hjá þeim.