Vegna ummæla Sigmars K. Albertssonar, skiptastjóra þrotabús HUMAC í Kastljósi í kvöld vill Nýi Glitnir koma eftirfarandi á framfæri:
Í aðdraganda að gjaldþroti HUMAC hafði hópur áhugasamra kaupenda samband við Nýja Glitni og gerðu bankanum tilboð í eignir þrotabúsins. Til þess að tryggja opið og gegnsætt söluferli hafnaði stjórn Nýja Glitnis tilboðinu þar sem Nýi Glitnir taldi betri kost að sala eigna félagsins færi í formlegt opinbert ferli hjá skiptastjóra.
Eftir að skiptastjóri tók við málinu gerði sami fjárfestahópur honum tilboð í eignir félagsins og óskaði skiptastjóri eftir samþykki Nýja Glitnis og mælti með því að tilboðinu yrði tekið þar sem hann taldi einsýnt að ekki kæmi hærri tilboð. Þá var það álit hans að ef rekstur félagsins myndi stöðvast myndu verulegir fjármunir glatast og 20–25 starfsmenn missa vinnuna. Í ljósi þessa álits skiptastjóra tóku stjórnendur Nýja Glitnis þá ákvörðun að setja sig ekki uppá móti sölu þrotabús HUMAC á eignum félagsins til áðurnefnds fjárfestahóps.