Milli 110 og 120 útköll hafa borist til björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna óveðurs, sem hefur verið á suðvestanverðu landinu í kvöld. Veðrið er nú að byrja að ganga niður á Reykjanesi en að sama skapi er að hvessa á Suðurlandi.
Að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, eru um 140 björgunarsveitarmenn að störfum. Útköll hafa aðallega verið á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og Snæfellsnesi en nú á ellefta tímanum hafa komið útköll á Selfossi og Þorlákshöfn.
Björgunarsveitarmenn hafa aðallega verið kallaðir út vegna þakplatna, sem fjúka, stillansa, glugga sem hafa fokið upp, ljósastaura sem hafa bognað og vatnsleka en mikið úrfelli fylgir óveðrinu. Ekki er vitað um nein slys á fólki eða stórvægilegt tjón.
Búist er við að veðrið gangi niður á höfuðborgasvæðinu þegar kemur undir miðnætti. Vindhraði á Suðvesturlandi er víða 24-26 metrar á sekúndu og mun hvassara í hviðum.