18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa tvívegis haft samræði við stúlku, sem gat ekki spornað við verknaðnum vegna andlegra annmarka og líkamlegrar fötlunar. Maðurinn starfaði sem bílstjóri í afleysingum fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra þegar þetta gerðist í nóvember árið 2006. Stúlkan var þá 17 ára.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn í 2 ára fangelsi og til að greiða stúlkunni 1 milljón króna í bætur. Þrír dómarar Hæstaréttar mynduðu meirihluta í málinu og dæmdu manninn í 18 mánaða fangelsi og til að greiða stúlkunni 800 þúsund krónur í bætur. Tveir dómarar Hæstaréttar vildu staðfesta héraðsdóm. 

Í málinu viðurkenndi maðurinn að hafa haft kynferðismök við stúlkuna en sagðist ekki hafa notfært sér andlega annmarka og líkamlega fötlun hennar, enda hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að hún væri þroskahömluð.  

Stúlkan lenti í alvarlegu bílslysi þegar hún var 12 ára og hlaut m.a. heilaskaða. Hæstiréttur taldi, að manninum hafi ekki getað dulist að stúlkan ætti við andlega annmarka að stríða og maðurinn  hafi vegna yfirburða sinna notfært sér andlega annmarka hennar. 

Í héraðsdómi kom fram, að brotið hafi haft alvarleg og víðtæk áhrif á stúlkuna og að skerðing á vitsmunaþroska geri henni erfiðara fyrir en ella að vinna úr þessu áfalli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert