Áfengisgjald hækkað

Gert er ráð fyrir að svonefnd áfengis- og tóbaksgjöld hækki um 12,5% samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi rétt í þessu. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum í kvöld. Einnig var lagt fram frumvarp um að eldsneytisgjald og bifreiðagjald hækki um 12,5%.

Fram kom í máli Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að gert sé ráð fyrir að áfengis- og tóbaksgjald hækki um 12,5% og er þá miðað við að hækkun vísitölu neysluverðs. Áfengisgjald hefur verið óbreytt frá árinu 1998. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að þessi gjöld myndu hækka um 11,5%.

Árni sagði, að miðað væri við að tekjur ríkisins hækki um 1300 milljónir á vegna þessarar hækkunar.  

Einnig lagði Árni fram frumvarp um að eldsneytisgjald og bifreiðagjöld hækki um 12,5%. Sagði Árni, að sú hækkun væri vel innan þeirra marka, sem gjöldin hafa rýrnað að verðgildi frá því þeim var breytt síðast. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins aukist um 2275 milljónir króna á ársgrundvelli vegna þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert