Atvinnulausum hefur fjölgað gríðarlega að undanförnu og ekkert lát virðist þar á enn sem komið er. Hlutfallslegt atvinnuleysi mældist 3,3% í nóvember en var 1,9% mánuðinn áður. Í lok nóvember voru 6.350 skráðir atvinnulausir en á vefsíðu Vinnumálastofnunar í dag eru þeir 8.461. Þeim hefur því fjölgað um 260 hvern virkan dag mánaðarins. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.
Nú eru fleiri karlar atvinnulausir en konur en það hefur ekki gerst frá því atvinnuleysi var mest árið 2002. Í síðasta mánuði fjölgaði atvinnulausum körlum um 71% meðan konunum fjölgaði um 47%. Aukning atvinnuleysis í síðasta mánuði var heldur meiri á höfuðborgarsvæðinu (62%) en á landsbyggðinni (57%) en 62% atvinnulausra búa á fyrrnefnda svæðinu. Fjölgun atvinnulausra erlendra ríkisborgara í síðasta mánuði var sú sama og varð á heildarfjölda atvinnulausra (60%). Þeir eru nú 15% af hópnum og atvinnuleysi meðal þeirra því eitthvað meira en meðal íslenskra ríkisborgara.
„Aukning atvinnuleysis hefur verið langt umfram það sem búist hafði verið við. Erfitt er að spá um framhald atvinnuleysisins sem og annarra þátta efnahagsframvindunnar. Svo virðist sem minni tregða sé gagnvart uppsögnum en á fyrri samdráttarskeiðum og á ástand á fjármálamarkaði efalítið sinn þátt í því. Hlutfallslegt atvinnuleysi hefur aldrei orðið hærra en 7,5% af vinnuafli í einum mánuði frá árinu 1980 en það var í janúar 1994. Það mundi jafngilda um 12.000 atvinnulausum nú," að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.