Mikil sala er á hrossakjöti, notuðum fötum og notuðum mynddiskum í Reykjavík í jólamánuðinum. Segir í frétt AP fréttastofunnar að áður hafi Íslendingar keypt áður en þeir hugsuðu en það hafi breyst í kjölfar efnahagskreppunnar sem nú ríki á Íslandi þar sem atvinnuleysi fer vaxandi, vöruverð hækkar og bankakerfið er lamað. Því sé jafnvel þannig komið að Íslendingar sem kaupi bjór kaupi íslenskan þar sem hann er ódýrari.
Segir AP fréttastofan að jólin eigi eftir að vera Íslendingum erfiðari en áður eftir mikinn vöxt undanfarin ár sem hafi þýtt að Ísland varð meðal ríkustu þjóða heims. Enda séu fá lönd sem geti státað af jafn mörgum Range Roverum miðað við fólksfjölda og Íslandi. „Nú liggi meinlætalifnaður í loftinu."
Fréttamaður AP ræddi við ýmsa sem selja vörur í Kolaportinu og láta þeir vel af sölunni. Hún hafi jafnvel tvöfaldast nú í jólamánuðinum enda verðið lægra þar heldur en víðast hvar í verslunum í Reykjavík. Nú sé svo komið að vinsælasti mynddiskurinn í Kolaportinu eru notuð eintök af Söngvaseiði.Þorbjörn Broddason, fjölmiðlafræðingur og kennari við Háskóla Íslands segir í viðtali við AP að það sé að renna af fólki. Undanfarin ár hafi peningar ráðið ferðinni og þeir sem græddu mikið af peningum voru þeir einu sem taldir voru njóta velgengni. Fólk hafi velt vöngum yfir því hvers vegna það hafi ekki átt einhverja af þessum flottu Range Roverum sem voru á ferðinni og spurt sig hvað er eiginlega að mér. „Ég held að þetta eigi eftir að breytast hratt. Fólk á eftir að meta meira tryggð og hófsemi," segir Þorbjörn í viðtali við AP.
Fleiri taka undir þetta með Þorbirni í frétt AP og segja að fjölskyldugildin verði ofan á í efnahagskreppunni sem nú ríkir.