Grín sem gekk of langt

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Það vakti óneitanlega mikla athygli þegar það kom í ljós að dánartilkynning, sem birtist á síðum Morgunblaðsins í gær, reyndist vera uppspuni frá rótum. Maðurinn, sem sagður var látinn, reyndist vera á lífi og afplánar dóm á Litla-Hrauni. Þetta var vinnustaðagrín sem gekk of langt, segir sá sem bjó til auglýsinguna.

„Þetta átti ekkert að fara neitt lengra,“ segir Sigurbjörn Adam Baldvinsson, sem einnig afplánar dóm á Litla Hrauni, í samtali við mbl.is. Það hafi verið mistök að tilkynningin birtist í Morgunblaðinu.

Hann vísar því alfarið á bug að þetta hafi verið tilraun til fjársvika. Í dánarauglýsingunni segir, að maðurinn hafi látist eftir langvarandi veikindi og var þeim sem vildu minnast hans bent á reikningsnúmer. Reikningurinn og kennitala, sem upp voru gefin, eru Sigurbjörns.

Hann segist aðspurður ekki hafa hugmynd um það hver sendi dánartilkynninguna til birtingar í blaðinu.

Lögreglan á Selfossi, sem hefur málið til rannsóknar, hefur tekið skýrslu af Sigurbirni og öðrum sem málið varðar. Nú er málið á borði lögreglustjórans og það er hans, eða fulltrúa hans, að ákveða með framhaldið, þ.e. hvort haldið verður lengra með málið eða það látið falla niður.

„Mér finnst að skýringarnar [hans eigin] ættu að vera teknar gildar,“ segir Sigurbjörn og bendir á enginn hafi lagt fé inn á reikningsnúmerið. Hann ítrekar að þetta hafi ekki verið tilraun til fjársvika. 

Spurður út aðgengi fanga að tölvum og að netinu segir Sigurbjörn: „Við höfum okkar tölvur en við höfum ekki sérstakan netaðgang.“ Fangarnir á Litla Hrauni geti t.d. ekki sent tölvupóst eða sms í gegnum netið. 

„Honum þótti þetta mjög fyndið,“ segir Sigurbjörn spurður út í þann sem grínið beindist að. Gamanið hafi hins vegar kárnað þegar dánartilkynningin birtist svo í blaðinu. Þeim hafi báðum brugðið „því þetta leit svolítið illa út. Þá var þetta hætt að vera fyndið,“ segir hann.

„Mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ segir Sigurbjörn að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert