Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hefur vísað máli til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra er varðar óútskýrða millifærslu inn á persónulegan bankareikning starfsmanns bankans. Millifærslan átti sér stað í byrjun október. Málið kom upp í eftirlitskerfum bankans og var rannsakað af óháðum endurskoðendum sem ráðnir hafa verið af skilanefndinni til að rannsaka viðskipti og fjármagnshreyfingar í tengslum við hrun fjármálakerfisins á Íslandi, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
„Skilanefnd tók málið föstum tökum frá upphafi. Í samræmi við verkferla var haft samráð við Fjármálaeftirlitið og í kjölfarið var því vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er það mat skilanefndar að ekkert fjárhagslegt tjón hafi orðið vegna þessa máls," samkvæmt tilkynningu.
Starfsmaðurinn hefur látið af störfum.