Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur hættu á að grundvallarmannréttindum, s.s. friðhelgi einkalífsins, sé hætta búin verði lagafrumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum bankahrunsins samþykkt. Í frumvarpinu er farið yfir starfssvið og heimildir nefndar sem á að rannsaka bankahrunið.
Í umsögn laganefndar er bent á að þagnarskylda eigi að hvíla á rannsóknarnefndarfólki. Þó fær nefndin víðtækar heimildir til að birta upplýsingar telji hún slíkt nauðsynlegt.
Varar laganefnd við að nefndin megi birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga telji hún að verulegir almannahagsmunir af því vegi þyngra en hagsmunir þess sem í hlut á. Laganefnd sér ekki „hvaða almannahagsmunir geti verið fyrir hendi sem heimili slíkt brot á friðhelgi einkalífs“. Bent er á að reglur um vernd friðhelgi einkalífs séu lögfestar í stjórnarskrá landsins sem og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Í umsögninni er bent á ákvæði í frumvarpinu sem skyldi menn til að afhenda upplýsingar sem nefndin fer fram á, s.s. skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir og samninga. Segir í athugasemdum með frumvarpinu að þagnarskylda víki undantekningarlaust fyrir þessari skyldu.
Laganefndin gerir alvarlegar athugasemdir við að skylda til að láta upplýsingar í té sé gerð þagnarskyldu yfirsterkari. Þagnarskylduákvæði séu lögfest í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. „Með því að afnema þagnarskyldu undantekningarlaust í öllum tilfellum er næsta víst að frumvarpið brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár verði það að lögum.“