Borgarráð hefur samþykkt tillögu nafnanefndar Reykjavíkurborgar um nafngiftir nýrra gatna á slippasvæðinu. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að svonefnd Slippagata liggi frá Geirsgötu að Seljavegi. Með nafngiftinni er vísað til þess að gatan verður lögð yfir athafnasvæði gömlu slippanna við Reykjavíkurhöfn.
Bræðraborgarstígur verði framlengdur að Slippagötu. Fyrsta gatan til norðurs frá Slippagötu mun bera nafnið Græðisgata. Önnur gata til norðurs frá Slippagötu mun bera nafnið Hlésgata og þriðja gata til norðurs Lagargata.
Gatan milli Hlésgötu og Grandagarðs mun bera heitið Rastargata. Göngustígur frá Slippagötu að nýrri smábátahöfn mun bera heitið Seljastígur. Torg milli Seljastígs og Hlésgötu fær heitið Brekatorg, torg norðan Héðinshúss og lóðar Aliance fær heitið Seljatorg og torg við Ægisvör fær heitið Ægistorg. Mýrargata heldur nafni sínu á þeim kafla sem eftir lifir af götunni.
Í greinargerð með tillögu nefndarinnar að nafngiftum gatna á slippasvæðinu kemur fram að Slippagata dragi nafn sitt af gamla slippasvæðinu og haldi þannig minni þeirra. En skipasmíðar og skipaviðgerðir hafa verið starfræktar á svæðinu a.m.k. frá árinu 1902.
Aðrar götur fá heiti sjávar og boða með vísan til þess að byggt verði að hluta á fyllingu út í víkina. Einnig taki nöfnin mið af gatnaheitum sunnan Vesturgötu, s.s. Bárugötu, Ránargötu og Öldugötu.
Borgarráð bókaði á fundi sínum í morgun að því væri haldið til haga sem áður hefði verið beint til nafnanefndar að nýjar götur í borginni yrðu látnar bera nöfn þeirra kvenna sem fyrstar sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur en nýlega voru liðin 100 ár síðan fyrsta konan tók þar sæti.